Fótbolti

Heldur sigurganga Spánar áfram

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fabregas jafnar metin í fyrri leik liðanna
Fabregas jafnar metin í fyrri leik liðanna MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Hér á árum áður var oft talað um Spán sem næstum því lið, lið skipað frábærum leikmönnum sem aldrei vann neitt. Nú er öldin önnur því Spánn er handhafi Evrópu- og Heimsmeistaratitlanna og getur því sigrað þriðja stórmótið í röð sigri liðið Ítalíu í úrslitaleiknum.

Í kvöld mætast liðins sem unnið hafa þrjú síðustu stórmót. Ítalía varð Heimsmeistari 2008 en þá tók Spánn við með því að sigra Evrópumeistaramótið 2010 og Heimsmeistaramótið 2012. Hér mætast þau lið sem hafa leikið hvað best á mótinu en liðin voru saman í C-riðli mótsins þar sem liðin skildu jöfn 1-1 í fyrstu umferð keppninnar.

Búast má við því að Spánn verði meira með boltann í kvöld líkt og í leiknum í Gdansk fyrir þremur vikum. Spánn hefur verið mun meira með boltann í öllum leikjum sínum í mótinu og hefur gefið 3.417 sendingar í leikjum sínum á sama tíma og andstæðingarnir hafa náð að gefa boltann 1.530 sinnum sín á milli.

Þó Ítalía hafi aðeins verið með boltann 35% af leiktímanum í fyrri leik liðanna þá náði liðið forystunni í leiknum en Ítalía sýndi strax í þeim leik hve öflugt liðið er í sóknaraðgerðum sínum. Liðið hefur gefið orðspori sínu um að leika leiðinlegan varnarsinnaðan fótbolta langt nef og blásið til sóknar með hröðum og skemmtilegum leik. Með Balotelli frammi er liðið auk þess með þann sóknarmann í sínu liði sem hefur bætt sig hvað mest er liðið hefur á mótið auk þess sem Andrea Pirlo hefur farið á kostum á miðjunni.

Spánn hefur gefið 58 sendingar fyrir hvert skot á mark í mótinu. Liðið gaf 44 sendingar fyrir hvert skot á HM í Suður-Afríku og 33 sendingar fyrir hvert skot á EM 2008. Með leik sínum hefur Spánn unnið hægt og rólega á andstæðingum sínum, þreytt þá og tryggt sér sigur í lokin.

Ætla má að Spánn reyni að leika sama leikinn gegn Ítalíu í kvöld en ætli Ítalía að vinna sinn fyrsta Evrópumeistaratitil frá árinu 1968 þá þarf liðið að nýta færin eins og liðið gerði gegn Þýskalandi í undanúrslitum en ekki eins og liðið gerði í átta liða úrslitum gegn Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×