Fótbolti

Laurent Blanc um Nasri: Skaðaði ímynd sína og franska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri "sussaði" á blaðamenn eftir markið sitt á móti Englandi.
Samir Nasri "sussaði" á blaðamenn eftir markið sitt á móti Englandi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Laurent Blanc, þjálfari franska landsliðsins, hefur tjáð sig um rifildi Samir Nasri og franska blaðamannsins eftir tap Frakka á móti Spáni á laugardagskvöldið. Nasri hraunaði yfir blaðamanninn og bauð honum að lokum að slást við sig.

„Það er mjög leiðinlegt að þetta skyldi koma fyrir en þetta er samt bara vandamál á milli Samir og fjölmiðlanna," sagði Laurent Blanc í sjónvarpsviðtali.

„Þetta er engu að síður mjög mjög slæmt fyrir ímynd hans en hann er hér á vegum Frakklands þannig að þetta er líka slæmt fyrir ímynd landsliðsins," sagði Blanc.

„Eins og ég heyrði þetta þá sýndi hann blaðamanninum óvirðingu en sá hinn sami blaðamaður hafði áður sýnt honum óvirðingu," sagði Blanc

Laurent Blanc sagðist ennfremur hafa varað Samir Nasri við að fara ekki í stríð við fjölmiðla eftir að Nasi fagnaði marki sínu á móti Englendingum með því að "sussa" á gagnrýnendur sína.

„Ég sagði honum mína skoðun eftir fyrsta atvikið en augljóslega hlustaði hann ekki á mig," sagði Blanc.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×