Fótbolti

Rússar skoruðu fjögur mörk hjá Petr Cech

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Rússar eru til alls líklegir í EM í fótbolta í ár eftir 4-1 sigur á Tékkum í seinni leik dagsins í A-riðli. Hinn 21 árs gamli Alan Dzagoev skoraði tvö mörk fyrir Rússa og Roman Pavlyuchenko kom inn á sem varamaður og bæði skoraði og lagði upp mark. Petr Cech, markvörður Tékka og Evrópumeistara Chelsea, þurfti því að sækja boltann fjórum sinnum í markið sitt í kvöld.

Tékkarnir byrjuðu leikinn vel og voru sterkari aðilinn fyrstu mínútur leiksins en það voru Rússarnir sem skoruðu fyrsta markið. Alan Dzagoev kom Rússum í 1-0 á 15. mínútu þegar hann fylgdi vel á eftir þegar Aleksandr Kerzhakov skallaði boltann í stöngina efrir frábæra sókn upp hægri kantinn.

Alan Dzagoev gat komið Rússum í 2-0 skömmu síðar eftir laglegan undirbúning Andrey Arshavin en skot hans fór framhjá.

Rússarnir voru aftur á móti komnir í gang og Roman Shirokov kom þeim í 2-0 á 24. mínútu eftir stungusendingu frá Andrey Arshavin. Shirokov lyfti boltanum laglega yfir Petr Cech í marki Tékka.

Það var ekki mikið í stöðunni fyrir Tékka eftir fyrri hálfleikinn en Vaclav Pilar kom með spennu inn í leikinn þegar hann minnkaði muninn í 2-1 á 52. mínútu. Pilar fékk þá frábæra sendingu inn fyrir frá Jaroslav Plasil, lék á markvörðinn og skoraði laglega.

Alan Dzagoev var ekki hættur og bætti við sínu öðru marki á 79. mínútu þegar hann afgreiddi frábærlega sendingu frá Roman Pavlyuchenko.

Roman Pavlyuchenko skoraði sjálfur fjórða markið þremur mínútum síðar. Hann fékk að leika sér með boltann í teignum áður en hann lét vaða upp í bláhornið frá vítateigslínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×