Fótbolti

Nýi United-maðurinn skoraði í stórsigri Japana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shinji Kagawa hélt upp á samning við enska stórliðið Manchester United með því að skora eitt marka japanska landsliðsins í 6-0 stórsigri á Jórdaníu í undankeppni FIFA í dag. United mun kaupa Kagawa frá þýsku meisturunum í Borussia Dortmund og verður hann fyrsti Japaninn sem spilar fyrir Manchester United.

Stjarna leiksins var þó Keisuke Honda, leikmaður rússneska liðsins CSKA Moskvu, en hann skoraði þrennu auk þess að leggja upp fyrsta markið fyrir Ryoichi Maeda. Yuzo Kurihara skoraði síðan sjötta markið skömmu fyrir leikslok.

Kagawa náði ekki að skora í 3-0 sigri á Óman fyrir fimm dögum en þessi 23 ára gamli sóknarmiðjumaður hefur skorað 8 mörk í 15 landsleikjunum undanfarin tvö ár. Það er hægt að sjá markið hans með því að smella hér fyrir ofan.

Japanar eru með fullt hús og hreint mark eftir fyrstu tvo leikina en næsti leikur liðsins er á móti Ástralíu eftir aðeins fjóra daga. Ástralir náðu óvæent aðeins markalausu jafntefli á móti Óman í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×