Innlent

Ögrun fólgin í sjávarútvegi

Mynd/GVA
Íslensk stjórnvöld eru tilbúin að hefja viðræður um alla kafla aðildarviðræðna við Evrópusambandið, að sögn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Stækkunarstjóri sambandsins segir það verða mikla ögrun bæði fyrir Íslendinga og sambandið að takast á um sjávarútvegsmálin.

Formlegar aðildarviðræður Íslands hófust á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins í Brussel í gær sem stóð í rúma klukkustund. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sat fundinn með utanríkisráðherra ásamt Stefáni Hauki Jóhannessyni, formanni samninganefndar Íslands.

János Martonyi, utanríkisráðherra Ungverjalands, sem nú er að ljúka forsæti sínu hjá sambandinu, lýsti yfir ánægju sinni með að formlegar viðræður væru nú hafnar við Íslendinga. Ungverjar lögðu sérstaka áherslu á það á tíma sínum sem forysturíki sambandsins að sinna stækkunarferli þess.

Martonyi sagði Íslendinga koma vel undirbúna að viðræðunum. Öll ríki sem gerst hefðu aðilar að Evrópusambandinu hefðu einhverja sérhagsmuni og í tilfelli Íslendinga væru það sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Hann væri sannfærður um að Íslendingum og Evrópusambandinu tækist að komast að viðráðanlegri niðurstöðu í þessum málum.

Össur lagði til á ríkjaráðstefnunni að formlegar viðræður hæfust sem allra fyrst um alla þá málaflokka sem nauðsynlegt væri að ná samkomulagi um. Á ríkjaráðstefnunni í gær voru fjórir af 35 köflum samninganna teknir fyrir og umræðum um tvo þeirra lokið. Það var um mennta- og menningarmál, vísindi og rannsóknir, upplýsingasamfélagið og fjölmiðla og loks kaflinn um opinber innkaup.

Utanríkisráðherra sagði Íslendinga koma vel undirbúna til viðræðnanna en dró engan dul á að Íslendingar yrðu Evrópusambandinu erfiðir þegar kæmi að sjávarútvegsmálunum. Hann sagði við spænskan fréttamann sem spurði hann um þau mál að Spánverjar væru stórveldi í sjávarútvegsmálum innan ESB en sem betur fer væru samskipti Íslands og Spánar ákaflega vinsamleg.

Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, viðurkenndi einnig að sjávarútvegsmálin yrðu erfið viðureignar og ögrun bæði fyrir ESB og Íslendinga. Íslendingar rækju sjálfbæra sjávarútvegsstefnu sem væri markmið sem ESB hefði einnig sett sér en sjávarútvegsstefna ESB væri í mótun um þessar mundir.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var að sitja sinn fyrsta fund við samningaborðið í Brussel. Hann sagðist ánægður með að viðræðurnar hæfust af krafti og hann vildi að þjóðin fengi sem fyrst að taka afstöðu til niðurstöðu samninga. Árni Þór sagðist styðja þá ákvörðun Alþingis að ganga til viðræðnanna og að þjóðin fengi síðan að hafa lokaorðið um hvort Ísland gerðist aðili að ESB eða ekki.

Árni Þór sagðist myndu gefa utanríkismálanefnd skýrslu um ríkjaráðstefnuna og reiknaði með að nefndin og jafnvel aðrir þingmenn kæmu að samningaviðræðunum, eins og ályktun Alþingis gerði ráð fyrir. Þótt íslensk stjórnsýsla væri fámenn hefði hún staðið sig vel í undirbúningi og aðdraganda viðræðnanna.

hmp@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×