Erlent

Missti hringinn í klósettið árið 1938 - fékk hann í hendurnar árið 2011

Jesse Mattos fær hringinn frá Tony Congi eftir 73 ára bið.
Jesse Mattos fær hringinn frá Tony Congi eftir 73 ára bið.
Þegar Jesse Mattos var sautján ára gamall árið 1938 missti hann útskriftarhringinn sinn ofan í klósett í kjötmarkaði í Kaliforníu. Nú 73 árum síðar er hann kominn með hringinn aftur í hendurnar.

Eins og tíðkast í mörgum skólum í Bandaríkjunum voru upphafsstafirnir og útskriftarárið grafið í hringinn; 1938 og JTM. Jesse vann í kjötmarkaði með skólanum á þessum árum og þegar hann fór á klósettið einn góðan veðurdag missti hann hringinn ofan í klósettið. Hann bjóst við því að hringurinn hefði skolast út í sjó og myndi ekki sjá hann aftur.

Þegar að Tony Congi, sem vinnur við  sorphreinsun, sá hringinn í skolplögn um 300 kílómetrum frá bænum þekkti hann strax sögu hringsins. Því Tony útskrifaðist nefnilega frá sama skóla og Jesse nema árið 1976.

Hann fór með hringinn í hreinsun og hafði samband við skólann og fann út hver hefði upphafsstafina JTM og útskrifaðist árið 1938. Hann hafði svo samband við Jesse og tjáði honum að hann væri með hringinn hans.

Jesse, sem er nú orðinn níræður ætlaði varla að trúa því að hringurinn hans væri fundinn. „Nú þegar ég er með hringinn á mér finnst mér ég vera miklu yngri,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×