Erlent

Fyrsta morðið sem næst á vefmyndavél - engin dánarorsök

Strákur sá tilræðismann kærustu sinnar gegnum vefmyndavél.
Strákur sá tilræðismann kærustu sinnar gegnum vefmyndavél.
Síðastliðinn föstudag var kínversk stúlka myrt í Kanada á meðan að kærastinn hennar horfði á gegnum vefmyndavél frá annarri heimsálfu. Líklega er um að ræða fyrsta sinn í sögu Kanada sem einhver verður vitni að morði gegnum internetið.

Stúlkan stundaði háskólanám í Toronto. Hún var að spjalla við kærastann sinn gegnum spjallsíðu á netinu þegar bankað var á dyrnar að herbergi hennar. Fyrir utan stóð karlmaður sem kærasti hennar þekkti ekki en lýsti síðar sem vöðvastæltum hvítum karlmanni. Hún hleypti honum inn og fljótlega brutust fram átök. Kærasti hennar sat svo hjálparvana í Kína og horfði á stimpingarnar gegnum vefmyndavél. Eftir nokkra stund komst karlmaðurinn í tölvuna og rauf netsambandið.

Kærasti stúlkunnar setti sig í kjölfarið í samband við lögregluna í Toronto og sagði frá atvikunum. Lögreglan kom ekki á staðinn fyrr en tíu tímum síðar og fann þar stúlkuna örenda á gólfinu. Þegar komið var að henni hafði hún verið færð úr öllum fötum neðan við mitti. Ekki sáust á henni neinir áverkar eða merki um kynferðislega misnotkun.

Kínverski háskólaneminn.
Þegar lögregla kom á vettvang hafði tölvan verið fjarlægð og er hún enn ófundin. Lögreglan hefur lýst eftir henni, enda er talið að upptakan af morðinu kunni að leynast þar inná. Ennfremur hefur lögreglan lýst eftir hjálp allra netsérfræðinga landsins við að leita að upptökunum í gagnabönkum inni á vefnum.

Í dag komu fram nýjar og óvæntar upplýsingar í málinu. Við krufningu var ekki sýnt fram á neina dánarorsök. Ráðgátan um það hvað drap stúlkuna hefur því dýpkað enn frekar. Helst hallast menn að því að henni hafi verið byrlað einhvers konar banvænt eitur.

Morðinginn er ófundinn og rannsókn í fullum gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×