Innlent

Segja meirihlutann hafa 150 þúsund krónur af fjölskyldum á ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn segja að skatta- og gjaldskrárhækkanir meirihlutans kosti fjölskyldur um 150 þúsund krónur á ári. Þegar önnur umræða um fjárhagsáætlun næsta árs fór fram í borgarstjórn í dag lögðu sjálfstæðismenn fram áætlun um að lækka álagningarhlutfall útsvars úr 14,48% í 14,23%. Þannig yrðu ítrekaðar skattahækkanir meirihlutans teknar til baka og álagningarhlutfallið yrði það sama og það var árið 2010.

Sjálfstæðismenn segja í yfirlýsingu að skatta- og gjaldskrárhækkanir meirihlutans séu komnar langt út fyrir þolmörk og greiðslugetu borgarbúa en skatttekjur borgarinnar hafi aukist um 15% frá 2010 og tekjur vegna gjaldskrár hafi hækkað um 40%. Meirihlutinn hafi tekið allt of mikið fé frá borgarbúum, aukið kostnað um of í kerfinu og á sama tíma lítið sem ekkert skorið niður í stjórnsýslunni.

„Þessi leið endalausra hækkana skatta og gjalda hefur bitnað mjög harkalega á borgarbúum og ég hvet meirihlutann til þess að kynna sér aðrar lausnir. Að taka rúmlega mánaðarlaun af almenningi í borginni með stöðugum hækkunum sem bitna hvað verst á barnafjölskyldum í borginni er bæði óafsakanlegt og óskiljanlegt. Það er skylda kjörinna fulltrúa að tryggja borgarbúum bestu lífsgæði sem kostur er á hverju sinni en til þess þarf hugrekki, þor og pólitískan kjark - með það að leiðarljósi að hlífa fjölskyldunum í borginni og standa með þeim á erfiðum tímum," sagði Hanna Birna á fundi borgarstjórnar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×