Enski boltinn

Illa farið með Adam hjá Blackpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Charlie Adam í leik með Blackpool.
Charlie Adam í leik með Blackpool. Nordic Photos / Getty Images

Umboðsmaður Charlie Adam segir að Blackpool hafi verið illa með skjólstæðing sinn en hann var hársbreidd frá því að fara frá félaginu á mánudaginn.

Adam var orðaður við nokkur félög í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool var nálægt því að klófesta kappann áður en félagaskiptaglugginn lokaði á mánudagskvöldið.

Tottenham reyndi einnig að fá hann en það vannst ekki tími til að framkvæma félagaskiptin.

„Charlie elskar Blackpool og stuðningsmenn félagsins en hann vildi ólmur fá að fara til Liverpool. Hver myndi ekki vilja svara kalli frá slíku félagi," sagði Kenny Moyes, umboðsmaður Adam, í samtali við The Sun í dag.

„En það var afar illa farið með hann. Blackpool neitaði að gefa upp hvað félagið vildi fá mikið fyrir hann og vildi ekki fara í neinar alvöru viðræður."

„Þetta hefur tekið á taugar Charlie. Hann er reiður og finnst að félagið hafi brugðist honum. Hann er eini leikmaðurinn sem lagði inn beiðni um félagaskipti sem var svo hunsuð."

„En sem betur fer er hann grjótharður nagli frá Glasgow og þetta mun ekki bitna á frammistöðu hans inn á vellinum. Það mun ekkert breyst."

„Hann er afar metnaðarfullur leikmaður og ég vona bara að félagið verði sanngjarnt í hans garð í sumar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×