Innlent

Ekkert gengur á loðnuveiðum

Ísleifur "á nösunum“ í Vestmannaeyjahöfn á vertíðinni í fyrra. fréttablaðið/óskar
Ísleifur "á nösunum“ í Vestmannaeyjahöfn á vertíðinni í fyrra. fréttablaðið/óskar Mynd/Óskar.
Loðnuveiðin á þessari vertíð er vart um talandi, þar sem aðeins rúmlega 8.500 tonn eru komin að landi síðan í byrjun október af rúmlega 180 þúsund tonna kvóta. Illa hefur gengið að staðsetja loðnu í veiðanlegu magni, en brælur hafa líka gert mönnum lífið leitt.

Lítið hefur fundist af loðnu í veiðanlegu magni úti af Vestfjörðum eftir að áhöfn rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar varð vör við álitlegar torfur af stórri og góðri loðnu á þessum slóðum á mánudag.

Meðal skipanna sem verið hafa við loðnuleit eru skip HB Granda, Ingunn AK og Faxi RE. Að sögn Jóhanns Arnar Jónbjörnssonar, sem er 1. stýrimaður á Ingunni í veiðiferðinni, voru skipin stödd norðvestur af Hornbjargi áður en brældi í gær.

„Ef spáin gengur eftir þá verður ekkert veiðiveður hér fyrr en um eða eftir næstu helgi," er haft eftir Jóhanni á vef HB Granda. Fréttir af síld eru aðrar og betri. Veiðum er um það bil að ljúka en 44 þúsund tonn voru komin á land í gær af 47 þúsund tonna kvóta, eða 94 prósent síldaraflans.Öll síldin hefur verið veidd inni á Breiðafirði með lítilli fyrirhöfn.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×