Innlent

140.000 manns kíkja í „heimsókn“ á viku

Hér er unnið að uppsetningu vefmyndavélar á Fimmvörðuhálsi. Vélinni var beint að gígum sem seinna fengu nöfnin Magni og Móði. Eyjafjallajökull hamast í baksýn. Ólafur Sveinsson, starfsmaður Mílu, er við vinnu sína.
Hér er unnið að uppsetningu vefmyndavélar á Fimmvörðuhálsi. Vélinni var beint að gígum sem seinna fengu nöfnin Magni og Móði. Eyjafjallajökull hamast í baksýn. Ólafur Sveinsson, starfsmaður Mílu, er við vinnu sína. mynd/Jóhannes K. Sólmundsson
Fjarskiptafyrirtækið Míla hefur hlotið eftirsótt verðlaun fyrir vefmyndavél sína við Jökulsárlón. Fjórar milljónir manna „heimsækja“ Ísland á ári í gegnum veggátt Mílu. Frelsisstyttan í New York og Everest-fjall eru meðal vinningshafa.

Vefmyndavél fjarskiptafyrirtækisins Mílu við Jökulsárlón hefur verið valin ein af 25 merkilegustu vefmyndavélunum árið 2011 af EarthCam, langstærsta fyrirtæki heims sem helgar sig beinum útsendingum á netinu. Á hverju ári „heimsækja“ hundruð þúsunda manna Ísland í gegnum myndavélarnar, sem eru tólf talsins.

Þetta er í þrettánda skipti sem EarthCam gefur út listann og eru sigurvegarar valdir úr þúsundum tilnefninga. Áþekkar vefmyndavélar skipta milljónum. Tilnefningarnar grundvallast á þremur þáttum; gæðum mynda, sérstöðu og alhliða tæknilegri getu.

Sigurrós Jónsdóttir, deildarstjóri markaðsstýringar Mílu, segir verðlaunin skemmtilega viðurkenningu og sýna vel hversu mikla athygli vélarnar hafi vakið bæði á Íslandi og ekki síst erlendis. Vefmyndavélarnar eru nú tólf talsins og þær tvær nýjustu eru á Akureyri og vél sem sýnir gamlárskvöld frá Vatnsenda í Reykjavík. „Við verðum með beina útsendingu frá áramótunum og flugeldunum í Reykjavík eins og í fyrra og það gæti því orðið ansi mikil traffík á síðuna þegar nýtt ár gengur í garð.“

Á venjulegum degi sýna tölur að heimsóknir á heimasíðu Mílu eru á bilinu 14 til 20 þúsund og yfir mánuðinn eru heimsóknirnar því um 350 þúsund alls.

Að sögn Sigurrósar hófst vefmyndavélaverkefnið með eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. „Þá fóru okkar menn af stað og settu upp vél á Hvolsvelli strax í upphafi goss. Svo erum við með vélar sem beinast bæði að Heklu og Kötlu, ef ske kynni að einhverjar hræringar hæfust þar. Aðrir staðir eru helstu ferðamannastaðir landsins sem falla í góðan jarðveg hjá útlendingum.“

Míla er í fríðum flokki verðlaunahafa hjá EarthCam. Þeirra á meðal eru vélar sem sýna eldinn í kyndli frelsisstyttunnar í New York, Everest, hæsta fjall heims, Fukushima-kjarnorkuverið í Japan sem fór illa í flóðbylgju eftir jarðskjálfta fyrr á árinu. Eins er vefmyndavélin í alþjóðlegu geimrannsóknastöðinni meðal vinningshafa.

Sigurrós segir að daglega berist tölvupóstur frá notendum vélanna. Margir eru að þakka fyrir sig en aðrir að benda á ef sendingar liggja niðri. Sjá: live.mila.is

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×