Erlent

Andlát Jobs vekur sterk viðbrögð

Steve Jobs
Steve Jobs mynd/afp
„Hugsanlega sýnir ekkert betur árangur Steves en sú staðreynd að stór hluti fólks í heiminum frétti af andláti hans með tækjabúnaði sem hann fann upp,“ skrifaði Barack Obama Bandaríkjaforseti á Twitter-síðu sína eftir að hann frétti af fráfalli Steves Jobs, meðstofnanda Apple-fyrirtækisins.

Fréttirnar hafa vakið sterk viðbrögð því Jobs átti sér dygga aðdáendur.

„Fyrir suma er hann eins og Elvis Presley eða John Lennon. Tímarnir okkar hafa breyst,“ segir einn aðdáendanna, Scott Robins, sem er 34 ára gamall rakari í San Francisco.

Jobs stofnaði tölvufyrirtækið Apple árið 1976 ásamt félögum sínum og hefur undanfarna áratugi sett á markað hverja tækninýjungina á fætur annarri sem slegið hefur í gegn um heim allan, fyrst Apple- og Macintosh-tölvurnar, síðar iPod-tónspilara, iPad-spjaldtölvur og iPhone-snjallsíma, svo nokkuð það helsta sé nefnt.

Jobs greindist með krabbamein árið 2004 og náði sér aldrei almennilega eftir það. Hann tók sér þrisvar löng veikindaleyfi, síðast í janúar á þessu ári og sneri ekki aftur til vinnu. Hann sagði af sér í ágúst og hafði þá valið Tim Cook til að taka við af sér sem framkvæmdastjóri Apple. Jobs lést á miðvikudag.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×