Innlent

Ákært fyrir vanrækslu sauðfjár

Meirihluti fjárins var vanfóðraður að því er segir í ákæru.
Meirihluti fjárins var vanfóðraður að því er segir í ákæru.
Lögreglustjórinn á Eskifirði hefur ákært ábúanda á Stórhóli í Djúpavogshreppi fyrir brot á lögum um dýravernd og búfjárhald með því að vanrækja að tryggja góðan aðbúnað, meðferð og fóðrun sauðfjár á ofangreindum bæ.

Ábúandanum er gefið að sök að hafa í mars 2011 haldið of margt fé í fjárhúsunum á bænum, eða 764 ær, þar sem aðeins var húsakostur fyrir 684 ær. Jafnframt að hafa vanrækt að halda fjárhúsunum þurrum þannig að for var á gólfi í hluta þeirra. Enn fremur að hafa vanrækt að rýja nokkrar ær og láta bólusetja allt að 135 ásetningslömb gegn garnaveiki. Meirihluti fjárins hafi verið vanfóðraður og ekki hafi verið leitað læknisaðstoðar fyrir veika og slasaða gripi á bænum né þeir aflífaðir.

Enn fremur er ákært fyrir vanrækslu þar sem 237 gemlingum hafi ekki verið tryggt húsaskjól í apríl árið áður, heldur þeir geymdir í skjóllausum girðingum. Þá eru ábúandinn og ábúandi á Hraunkoti ákærðir fyrir vanrækslu á 70 kindum sem fluttar voru á ofangreindan bæ, án þess að veita þeim húsaskjól og fullnægjandi fóður. Aflífa varð sex ær vegna ástands þeirra.

Refsingar er krafist auk banns við búfjárhaldi.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×