Innlent

Vilja að ekkert skyggi á kirkjuna í Skálholti

Verið er að endurbyggja nýja Þorláksbúð á rústum þeirra gömlu. Deilt er um staðarvalið fyrir nýbygginguna.
Verið er að endurbyggja nýja Þorláksbúð á rústum þeirra gömlu. Deilt er um staðarvalið fyrir nýbygginguna.
Afkomendur Harðar Bjarnasonar, fyrrum húsameistara ríkisins og hönnuður Skálholtskirkju, eru ósáttir við gerð svonefndrar Þorláksbúðar í nágrenni kirkjunnar og segja ekkert samráð hafa verið haft við sig vegna málsins.

Veggir að Þorláksbúð hafa verið hlaðnir ofan á fornum tóftum, en framkvæmdir hafa staðið frá því í fyrrasumar. Enn á eftir að setja upp tréverk fyrir framhlið og þak, en til stendur að ljúka þeim framkvæmdum í næstu viku.

Skálholtskirkja var vígð 1963, en börn Harðar, Áslaug og Hörður, eru nú að honum liðnum handhafar höfundarréttar kirkjubyggingarinnar. Áslaugsegir í samtali við Fréttablaðið að ekkert samráð hafi verið haft við hana og bróður hennar. Þau vilji alls ekki að Þorláksbúð rísi á þessum stað þar sem um tilfinningamál sé að ræða og nýbyggingin muni skaða ásýnd kirkjunnar.

„Faðir okkar og Sigurbjörn heitinn biskup voru prímus mótorar í byggingu kirkjunnar. Þeir hefðu viljað að umhverfi hennar fengi að halda sér og ekkert myndi skyggja á kirkjuna," sagði Áslaug. „Við höfum ekkert á móti því að Þorláksbúð verði byggð, en þá mætti byggja hana annars staðar á svæðinu."

Vegna þessa ósættis var málið tekið upp í kirkjuráði og var fjallað um það á fundi í gær. Talsmenn kirkjunnar vildu ekki tjá sig um málið eða afgreiðslu þess eftir fundinn. Kristján Valur Ingólfsson, nývígður vígslubiskup í Skálholti, sagði í viðtali við Stöð 2 fyrir nokkru að hann væri þeirrar skoðunar að bíða ætti með að taka ákvörðun um framhaldið þar til að öll óvissa um hvort farið hafi verið eftir reglum væri úr sögunni.

„Þetta er ansi seint í rassinn gripið," segir Árni Johnsen, sem er einn af forvígismönnum verkefnisins. „Staðsetningin er einfaldlega á rústum gömlu Þorláksbúðarinnar. Staðarvalið var ákveðið með deiliskipulagi árið 1996 og þá bárust engin andmæli. Þetta var allt unnið faglega en það er augsýnilega búið að egna þetta fólk upp á lokastigi framkvæmdarinnar. Smíðinni lýkur í næstu viku."

Árni kvaðst ekki vilja tjá sig um hugsanlegan rétt erfingja hönnuðar Skálholtskirkju. „En það getur varla verið að þeim hafi verið ætlað um aldur og ævi að ráða því hvað verður gert í Skálholti," segir Árni sem kveður nýja húsið vera lítið og fallegt. „Við teljum að þegar þetta er komið í höfn vildu allir Lilju kveðið hafa."

thorgils@frettabladid.is

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×