Lífið

Listamenn berjast í golfi

Arnar Jónsson og Gunnar Hansson eru báðir liðtækir kylfingar og ætla sér að berjast um sigurinn í golfmóti listamanna sem fram fer á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal.
Arnar Jónsson og Gunnar Hansson eru báðir liðtækir kylfingar og ætla sér að berjast um sigurinn í golfmóti listamanna sem fram fer á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal.
„Ég ætla að vinna þetta mót, alveg hundrað prósent. Ég hef aldrei tapað fyrir Arnari Jónssyni og ætla ekki að byrja á því í dag. Þetta eru stór orð en ég verð þá bara að kyngja þeim," segir Gunnar Hansson leikari.

Gunnar er meðal þeirra tæplegu fjörutíu kylfinga sem berjast um titilinn „besti kylfingur listamanna" í annað sinn, en mótið er haldið á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal í dag. Gunnar er, miðað við skráða forgjöf, meðal bestu kylfinga mótsins en hann er með 4,1. „Ég fékk náttúrlega þetta draumadjobb, að sjá um golf-magasínþátt fyrir RÚV, en það hefur þær afleiðingar að ég get lítið spilað sjálfur," segir Gunnar.

Arnar Jónsson leikari gefur lítið fyrir orð Gunnars og segist ætla að vinna mótið í ár; hann hafi líka verið fremur lélegur á síðasta móti og vilji bæta fyrir það. „Ég hef því miður ekki verið nægilega duglegur að spila, hef verið svo mikið erlendis, en ég tók aðeins forskot á sæluna og var viku á Spáni," segir Arnar, sem er með 9,6 í forgjöf.

Meðal annarra þjóðþekktra listamanna sem taka þátt í mótinu má nefna leikarana Kjartan Guðjónsson og Jóhann G. Jóhannsson, en sé tekið mið af forgjöfinni eru þeir hálfgerðir byrjendur, Kjartan er með 36 og Jóhann G. með 35 í forgjöf. Spaugstofufélagarnir fyrrverandi Randver Þorláksson og Sigurður Sigurjónsson verða einnig meðal keppenda, sem og kvikmyndagerðarmennirnir Björn Brynjúlfur Björnsson og Lárus Ýmir Óskarsson, en Lárus þykir nokkuð liðtækur og er með 9,1 í forgjöf.

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.