Lífið

Stökkbreyttur forleikur og stórbeinótt Kung Fu Panda

James McAvoy og Michael Fassbender í hlutverkum sínum sem Xavier og Magneto, en forleikurinn að X-Men verður frumsýndur um helgina ásamt Kung Fu PandaII.
James McAvoy og Michael Fassbender í hlutverkum sínum sem Xavier og Magneto, en forleikurinn að X-Men verður frumsýndur um helgina ásamt Kung Fu PandaII.
Stan Lee og Jack Kirby er mennirnir á bak við stökkbreyttu ofurhetjurnar í X-Men. Ásamt Steven Ditko og Bob Kane eru þeir sennilega stóra ástæðan fyrir því að myndasöguhetjur eru fastagestir í kvikmyndahúsum.

Nýjasta X-Men verður frumsýnd um helgina. Að þessu sinni er sagan færð aftur um nokkra áratugi og fylgst með uppgangi Xavier og Magneto á sjöunda áratugnum þegar stökkbreytta fólkið fer fyrst að láta á sér kræla. Þetta er fjórða myndin úr X-Men myndasöguflokki Marvel-fyrirtækisins, en menn hafa farið um víðan völl með þennan myndasöguflokk.

Fyrsta myndin um stökkbreytta fólkið var frumsýnd árið 2000 og reyndist ákaflega vel heppnuð hasarmynd. Að sjálfsögðu var því farið af stað með framhaldsmynd eins og lög gera ráð fyrir en X-Men: The Last Stand stóðst ekki alveg þær væntingar sem til hennar voru gerðar. Þá var ákveðið að draga út eina vinsælustu persónuna, sjálfan Wolverine, og gefa honum sénsinn, athuga hvort hann gæti ekki grætt einhverja aura. En það gekk ekki alveg eftir og því hafa aðstandendur X-Men ákveðið að beita kunnuglegu bragði; þeir færa söguna aftur til sjöunda áratugarins og kynna fyrir fólki söguna á bak við höfuðóvinina tvo, Xavier og Magneto. Meðal leikara í myndinni eru James McAvoy og Michael Fassbender en leikstjóri er Matthew Vaughn, sem gerði meðal annars Kick-Ass og Layer Cake.

Um helgina verður einnig frumsýnd Kung Fu Panda II, sem er framhald af geysivinsælli teiknimynd frá árinu 2008. Myndin segir frá svaðilförum stórbeinóttrar pöndu og baráttu hennar, með nokkrum kung fu brögðum, fyrir réttlætinu og sannleikanum. Kung Fu Panda II er skreytt röddum úr heimi Hollywood-stjarna en meðal þeirra sem tala inn á myndina eru Jack Black, Angelina Jolie, Dustin Hoffman, Gary Oldman, Seth Rogen og Jean-Claude Van Damme.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.