Erlent

Segja færri látna en áður var talið

Þrátt fyrir að enginn efist um að mikil eymd sé á Haítí, eru skiptar skoðanir um hversu margir létu þar lífið í skjálftanum. Mynd/AP
Þrátt fyrir að enginn efist um að mikil eymd sé á Haítí, eru skiptar skoðanir um hversu margir létu þar lífið í skjálftanum. Mynd/AP
Líklega hafa mun færri látist í jarðskjálftanum á Haítí í upphafi síðasta árs en opinberar tölur segja til um. Þetta er niðurstaða skýrslu sem unnin var fyrir Þróunarstofnun Bandaríkjanna, USAID. Skýrslan hefur ekki verið birt enn þar sem lokafrágangur stendur yfir.

 

Í niðurstöðum skýrslunnar, sem fréttaveitan AP hefur undir höndum, segir að líklega hafi á milli 46 þúsund og 85 þúsund manns látist í jarðskjálftanum, sem er víðs fjarri þeim 316 þúsund sem stjórnvöld á Haítí segja að hafi látist.

Þá segir í skýrslunni að 895 þúsund manns hafi flúið heimili sín og 375 þúsund búi enn í bráðabirgðaskýlum á meðan opinberar tölur segja að 1,5 milljónir manna hafi flúið að heiman og 680 þúsund séu enn á vergangi.

 

Þetta þykir skipta miklu máli þar sem Haítí fékk tugmilljarða í framlög frá stofnunum og öðrum löndum til uppbyggingarstarfs á grundvelli þess fjölda sem lést eða þeirra sem þurfa hjálp sökum hamfaranna. Stjórnvöld í Haítí sögðust ekki hafa séð skýrsluna og gátu því ekki tjáð sig um efni hennar.

 

Talsmaður Jean-Max Bellerive, fyrrum forsætisráðherra, sagði hins vegar í samtali við AP að skýrslan væri ófullkomin og rétt tala látinna væri sennilega mun nær opinberum tölum. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×