Lífið

Steindi Jr. gefur út sumarplötu

„Við ætlum að gefa út plötu og okkur langar að gefa hana út sem fyrst, helst eftir mánuð,“ segir grínistinn Steindi Jr.

Hann og félagi hans Ágúst Bent hafa ákveðið að gefa út öll lögin sem hafa hljómað í tveimur þáttaröðum Steindans okkar á Stöð 2. Sjö lög voru í fyrstu þáttaröðinni í fyrra og átta til viðbótar hljóma í þeirri nýjustu sem hefur verið sýnd að undanförnu. Flest lögin hafa notið mikilla vinsælda hjá aðdáendum þáttarins en þau voru unnin í samstarfi við upptökuteymin Stop Wait Go og Redd Lights, auk tónlistarmannsins Berndsen.

„Ég fæ mjög oft símtöl og tölvupósta frá alls konar fólki sem er að biðja um að senda sér lög. Ég hef alltaf gert það en það er kannski þægilegt að hafa þetta allt á einum stað,“ segir Steindi, sem útilokar ekki að fleiri lög verði tekin upp fyrir plötuna. Lög sem hafa verið minna áberandi í þáttunum og lítið heyrst í útvarpi fá sinn sess á plötunni, þar á meðal Í góðu skapi, Newcastle Utd. og Djöfull er mér heitt.

Steindi er þessa dagana að ljúka við áttunda og síðasta þáttinn í Steindanum okkar. Eftir það fer hópurinn í nokkurra vikna sumarfrí. Framhaldið er síðan óráðið. „Það á eftir að ákveða hvort það verður önnur sería en við sáum þetta alltaf fyrir okkur sem þrjár seríur,“ segir hann.

-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.