Lífið

Jóhann Jóhannsson: Vann með lúðrasveit frá Durham

Jóhann Jóhannsson samdi tónlist við myndina The Miner’s Hymns.
Jóhann Jóhannsson samdi tónlist við myndina The Miner’s Hymns.
Ný plata tónlistarmannsins Jóhanns Jóhannssonar við myndverkið The Miner‘s Hymns kemur út á mánudaginn. Verkefnið, sem hann vann með kvikmyndagerðarmanninum Bill Morrison, fjallar um kolanámumenn í norðurhluta Englands.

„Þetta er verk sem var pantað af festivali í borginni Durham. Ég kannaðist við verkin hans Bills. Hann hefur sérhæft sig í að vinna með efni úr kvikmyndasöfnum og notar gjarnan skemmdar filmur. Mér fannst mjög spennandi að vinna með honum enda höfðaði efnið til mín,“ segir Jóhann. „Við ferðuðumst nokkrum sinnum til Durham, sem er kannski menningarlegur miðpunktur á þessu svæði sem við erum að fjalla um. Við fórum til að kanna jarðveginn, skoða kvikmyndasöfn og hitta tónlistarmenn þaðan,“ segir Jóhann en tónlist hans við stiklu úr kvikmyndinni Battle of Los Angeles sem frumsýnd var á þessu ári vakti mikla athygli á bæði honum og tónlist hans.

Jóhann vann með lúðrasveit frá Durham í tengslum við verkefnið og frumflutti með henni The Miner’s Hymns í dómkirkju borgarinnar, sem er um þúsund ára gömul. Nokkrum mánuðum síðar var platan og DVD-mynddiskur með verkefninu tekin upp í kirkjunni.

Tónlistarmyndverk Jóhanns og Morrison er sérstætt að því að leyti að ekkert er talað inn á myndina heldur fær tónlist Jóhanns að njóta sín með gömlum myndum frá því kolanámuvinnsla í Norður-Englandi var í blóma á síðustu öld. „Þarna er verið að minnast þessa iðnaðar og lífsstíls sem er horfinn,“ segir Jóhann, sem fékk mjög góða dóma fyrir plötuna hjá BBC.

Myndin var frumsýnd á Tribeca-kvikmyndahátíðinni fyrir skömmu og fékk þar einnig góða dóma. Vonir standa til The Miner’s Hymns verði sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í haust.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.