Lífið

Atkvæðin hrynja inn í lagakeppni fyrir strákana

Friðrik Dór, Pollapönk, Dr. Spock og Mixed Emotions eiga lög í keppni Þórðar Helga um nýtt stuðningsmannalag fyrir U21 landslið karla í fótbolta.
Friðrik Dór, Pollapönk, Dr. Spock og Mixed Emotions eiga lög í keppni Þórðar Helga um nýtt stuðningsmannalag fyrir U21 landslið karla í fótbolta.
Landslið Íslands í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri tekur þátt í lokakeppni Evrópumótsins í sumar. Fjögur stuðningsmannalög hafa verið samin fyrir liðið og eru þau komin í keppni á Rás 2.

„Þátttakan í kosningunni er alveg svakalega mikil," segir Þórður Helgi Þórðarson, útvarpsmaður í íþróttaþættinum Sportrásin á Rás 2. Þórður leitaði á dögunum til hljómsveitanna Pollapönk, Dr. Spock, Mixed Emotions og söngvarans Friðriks Dórs um að semja stuðningslög fyrir U21 landslið karla í fótbolta, en liðið leikur á lokamóti Evrópukeppninnar í Danmörku í júní. Hægt er að hlusta á lögin fjögur á vef Sportrásarinnar og atkvæðin hrynja inn.

En hvað varð til þess að Þórður blés til keppninnar? „Það var nú eiginlega óvart," segir hann. „Ég fékk í hendurnar fullt af boltalögum. Þau eiga sameiginlegt að vera ekki frábær og ég fór að pæla í hvort það sé hægt að gera gott boltalag."

Í fyrstu ætlaði Þórður að láta hlustendur senda inn frumsamin lög, en slík keppni með lögum Bob Dylan fór í gang um svipað leyti og því ekki hægt að leggja á hlustendur að taka þátt í tveimur keppnum. „Þannig að ég pikkaði í þá sem ég vildi heyra semja svona lag," segir Þórður.

Og kemur það ekki betur út? „Það kemur miklu betri músík. En þeir eru með meira vesen yfir smáatriðum."

Kosningin stendur yfir þangað til á miðvikudag í næstu viku og verður sigurvegarinn tilkynntur í Sportrásinni daginn eftir. Lögin eru afar metnaðarfull, en kom það Þórði á óvart? „Ekki metnaðurinn, en gæðin. Venjulega finnst mér þessi lög leiðinleg, en þessi eru góð."

Átt þú þér uppáhaldslag í keppninni? „Já." Ætlarðu að gefa það upp? „Nei."

atlifannar@frettabladid.is

Óttarr Proppé, söngvari Dr.Spock.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.