Lífið

Stórborgin stundum ógnandi

Fyrirsæturnar Kolfinna Kristófersdóttir og Elmar Johnson.
Fyrirsæturnar Kolfinna Kristófersdóttir og Elmar Johnson.
Íslenskar fyrirsætur eru á faraldsfæti um þessar mundir og hefur einni þeirra, Kolfinnu Kristófersdóttur, tekist að fá verkefni strax viku eftir að hún flutti til London.

„Ég kom hingað á mánudaginn og líst vel á London enn sem komið er," segir Kolfinna Kristófersdóttir fyrirsæta.

Þegar Fréttablaðið náði af henni tali sat hún í fyrstu myndatöku sinni í London, myndaþætti fyrir breska tískutímaritið As you are, sem þykir góður árangur enda voru þá ekki nema fimm dagar liðnir frá því að Kolfinna kvaddi fjölskyldu sína á Íslandi og elti fyrirsætudrauminn til Bretlands.

Kolfinna skrifaði nýverið undir samning hjá einni stærstu umboðsskrifstofu Bretlands, Next. „Ég bý í mjög fínni íbúð á vegum skrifstofunnar með tveimur öðrum stelpu og Brynju Jónbjarnardóttur, annarri íslenskri fyrirsætu. Það er frábært að hafa annan Íslending með sér hérna," segir Kolfinna, sem er 18 ára gömul og viðurkennir að stórborgin geti stundum virkað ógnandi á sig.

„Hér eru allir alltaf að flýta sér og ég þarf að hafa mig alla við að vera ekki fyrir fólki úti á götu en Bretar eru líka mjög kurteisir," segir Kolfinna.

Foreldrar hennar eru í daglegu sambandi við hana og sakna hennar mjög mikið. „Þau eru mjög stolt af mér en auðvitað líka pínu stressuð. Þau vita samt að ég stend föst á mínu og er tilbúin til að standa á eigin fótum," segir Kolfinna.

Kolfinna er á vegum Eskimo-skrifstofunnar hérna heima og segir eigandinn Andrea Brabin að minnst fimm einstaklingar á vegum skrifstofunnar fari utan í fyrirsætustörf í sumar.

„Við erum mjög ánægð að sóst sé eftir fimm einstaklingum frá Íslandi út og það liggur mikil vinna að baki hverri för," segir Andrea, en auk Kolfinnu og Brynju fer Helgi Ómarsson einnig til London auk þess sem Elmar Johnson og Ford-stelpan Kolbrún Ýr Sturludóttir halda til New York.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.