Lífið

Heimsyfirráð Lady Gaga

Platan Born This Way með Lady Gaga kemur út eftir helgi. Þéttur danstakturinn er áfram í fyrirrúmi og ljóst er að hún ætlar ekkert að slaka á heimsyfirráðum sínum í poppheiminum.

Önnur hljóðsversplata poppdívunnar Lady Gaga í fullri lengd, Born This Way, kemur út á mánudaginn og bíða hennar margir með mikilli eftirvæntingu enda er Gaga líklega vinsælasti poppari heims í dag ásamt Justin Bieber.

Gaga heitir réttu nafni Stefani Germanotta og fæddist í New York 28. mars 1986. Hún gekk í kaþólskan stúlknaskóla áður en hún hóf tónlistarnám við Tisch-skólann í Háskóla New York, sautján ára gömul.

Ung að aldri byrjaði Gaga að spila á píanó og semja lög þar sem áhrifavaldarnir voru glysrokkarar á borð við David Bowie og Freddie Mercury (nafnið Gaga er fengið úr Queen-laginu Radio Ga Ga) ásamt poppurum á borð við Madonnu og Michael Jackson.

Árið 2007 byrjaði hún að koma fram á klúbbum í New York undir nafninu Lady Gaga and the Starlight Revue ásamt vinkonu sinni Lady Starlight. Útgáfufyrirtæki sáu fljótt að eitthvað var spunnið í Gaga. Def Jam varð fyrst til að semja við hana en ekkert kom út úr því samstarfi. Hún komst þá í kynni við upptökustjórann Rob Fusari. Hann sendi lög sem hann hafði gert með Gaga til Vincents Herbert, eiganda Streamline Records, undirfyrirtækis Interscope Records, sem gerði við hana samning þar sem hún starfaði sem lagahöfundur. En eftir að popparinn Akon heyrði Gaga syngja fékk hann Interscope Records til að gera sameiginlegan útgáfusamning við Gaga og fyrirtæki sitt Kon Live og þar með var hún komin undir hans verndarvæng.

Gaga byrjaði að undirbúa sinn eigin sólóferil og fyrsta smáskífulagið Just Dance kom út í apríl 2008 og í framhaldinu platan The Fame. Þar samdi hún öll lögin, meðal annars í samstarfi við Fusari. Miklar vinsældir Just Dance opnuðu leiðina fyrir næsta lag, Poker Face, sem varð risasmellur og skaut Lady Gaga upp á stjörnuhimininn. The Fame hefur nú selst í yfir tólf milljónum eintaka.

Næsta plata Gaga, The Fame Monster, átti upphaflega að vera bónusplata með The Fame en ákveðið var að bæta fleiri lögum við og gefa út átta laga plötu. Hún fékk einnig jákvæðar viðtökur, þar á meðal fyrsta smáskífulagið Bad Romance.

Nýja platan Born This Way hefur að geyma fjórtán lög og semur Gaga sem fyrr allt efnið í samstarfi við aðra. Titillagið Born This Way, þar sem þéttur danstakturinn er eins og áður í fyrirrúmi, fór rakleiðis á toppinn í tuttugu löndum. Miðað við þau lög sem hafa heyrst af plötunni er Gaga enn í fínu formi og mun vafalítið ekki slaka á heimsyfirráðum sínum í poppinu á næstunni.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.