Lífið

Mel Gibson að ranka við sér á ný

Ástralski leikarinn Mel Gibson virðist smám saman vera að ranka við sér á ný. Kvikmynd hans The Beaver eftir Jodie Foster hefur fengið ágætis dóma á kvikmyndahátíðinni í Cannes og Gibson hefur að mestu leyti náð að halda sig frá vandræðum við Miðjarðarhafsströndina.

Myndin hefur reyndar fengið afleita aðsókn í Bandaríkjunum en það er alltaf von, því nú er loks farið að orða leikarann við ný hlutverk og nýjar myndir. Slíkt hefur ekki gerst í nokkurn tíma og var hann meira að segja rekinn úr feluhlutverkinu í The Hangover II.

Gibson er nú sagður íhuga þátttöku í kvikmyndinni Sleight of Hand. Myndin fjallar um hóp innbrotsþjófa í París sem komast óvart yfir smápening í eigu glæpaforingja. Tökur á myndinni eiga að hefjast í júlí og meðal annarra leikara má nefna Kiefer Sutherland, Gerard Depardieu, Giancarlo Giannini og Eric Cantona, knattspyrnuhetjuna úr Manchester United.

Talsmenn Gibsons hafa ekki viljað staðfesta eitt eða neitt en Gibson þarf nauðsynlega á verkefnum að halda til að koma sér og sínum ferli aftur af stað. Hann verður næst hægt að sjá í kvikmyndinni How I Spent My Summer Vacation með Peter Stormare.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.