Lífið

Útvarpsstarfið leyndur draumur

Margrét Björnsdóttir uppistandari er með fiðrildi í maganum fyrir fyrsta þættinum á föstudaginn. Fréttablaðið/Stefán
Margrét Björnsdóttir uppistandari er með fiðrildi í maganum fyrir fyrsta þættinum á föstudaginn. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta er alveg hrikalega spennandi tækifæri og ég er með fiðrildi í maganum," segir Margrét Björnsdóttir, glænýr liðsmaður útvarpsstöðvarinnar FM957, en hún stjórnar þættinum Fjögur til sex á hverjum virkum degi ásamt Brynjari Má Valdimarssyni útvarpsmanni.

„Brynjar hringdi í mig fyrir helgi og sagði að þeir væri að leita að skemmtilegri stelpu í útvarpið og að mitt nafn hefði komið oft upp í þeim umræðum. Við hittumst svo um helgina og ég var ráðin," segir Margrét sem komst í fréttirnar fyrr í vetur þegar hún vann keppnina fyndnasti nemandi Verslunarskóla Íslands og fékk í kjölfarið að koma fram með uppistandshópnum Mið-Íslandi.

Margrét viðurkennir að útvarpsstarfið hafi lengi verið leyndur draumur „Mig hefur alltaf langað til komast í útvarpið því ég hef mjög mikinn áhuga á tónlist en ég er samt ekki kannski þessi týpíski FM957 hlustandi því ég er meira fyrir rokk en popp en lofa að spila mikið tónlistina úr Steindanum okkar, ég hreinlega elska þættina og lögin eru frábær," segir Margrét sem er þekkt fyrir að vera með ansi grófan húmor en það þarf hún að passa í útvarpi.

„Úff, já ég get sko ekki sagt hvað sem er og verð að passa að verða ekki of gróf.

Þátturinn er á besta útvarpstímanum og margir að hlusta," en samhliða útvarpsstarfinu stendur hún vaktina í tískuvöruversluninni Rokk&Rósum og í afgreiðslunni á 101 hótel.

„Það verður brjálað að gera hjá mér í sumar en ég er vön því og hlakka mikið til." Fyrsti þátturinn fer í loftið á föstudaginn. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.