Lífið

Flottir dómar fyrir Eldfjall

Kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Eldfjall, fær flotta dóma í þremur virtustu kvikmyndatímaritunum, Variety, Hollywood Reporter og Screen Daily. Myndin var frumsýnd á Cannes-kvikmyndahátíðinni í síðustu viku að viðstöddum leikstjóranum sjálfum og aðalleikurunum, þeim Theódór Júlíussyni og Margréti Helgu Jóhannesdóttur. Auk þeirra voru þau Þorsteinn Bachman og Elma Lísa Gunnarsdóttir einnig viðstödd frumsýninguna ásamt Kjartani Sveinssyni, oftast kenndum við Sigur Rós, en hann semur tónlistina í myndinni.

David Roony, rýnir hjá Hollywood Reporter, segir að þrátt fyrir nokkrar eldheitar ástarsenur milli gamals fólks eigi myndin seint eftir að verða fyrsta val hjá áhorfendum sem stefnumótamynd. „Þetta er hins vegar ástarsaga sem tekur á hlutunum af næmni og ögrar aldrei sannleikanum,“ skrifar Rooney. „Hún á eftir að snerta taugar hjá þeim sem hafa þurft að takast á við sjúkdóm hjá maka eða öldruðu foreldri og þær ákvarðanir sem fylgja slíkri baráttu.“

Mark Adams, rýnir Screen Daily, hrósa Theódór Júlíussyni alveg sérstaklega fyrir frammistöðu sína. Hann hrósar einnig einfaldleikanum og hversu fágaðan stíl Rúnar hefur. Alissa Simon hjá Variety segir Eldfjall halda í sín séreinkenni sem íslensk mynd en eigi einnig eftir að höfða vel til fólks útum allan heim.-fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.