Lífið

Órói hneykslar Kanadamenn

Atli Óskar Fjalarsson og Ingibjörg Reynisdóttir með rauðar rósir í Kristiansand ásamt Baldvini Z.
Atli Óskar Fjalarsson og Ingibjörg Reynisdóttir með rauðar rósir í Kristiansand ásamt Baldvini Z.
„Þetta var eins og allt þetta ævintýri, voða gaman,“ segir Baldvin Z, leikstjóri kvikmyndarinnar Órói.

Hún var opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Kristiansand í Noregi sem er nýafstaðin. Viðtökurnar voru mjög góðar, bæði þar og í Toronto þar sem myndin var sýnd skömmu áður.

„Á frumsýningunni í Noregi var mikið af ungu fólki í bland við bransaliðið. Það talaði um hvað unglingarnir sátu grafkyrrir allan tímann. Þau eru vön því að þeir verði órólegir ef þeim leiðist en myndin hélt þeim allan tímann,“ segir Baldvin.

Nokkrar opinskáar partí- og kynlífssenur eru í myndinni og fóru þær fyrir brjóstið á sumum.„Ég tók eftir því að þeir eru viðkvæmari en við, sérstaklega í Kanada. Þau eru alls ekki vön því að það sé farið svona með efnið. Það kom pínu á óvart.“

Baldvin, handritshöfundurinn Ingibjörg Reynisdóttir og aðalleikarinn Atli Óskar Fjalarsson svöruðu spurningum áhorfenda á hátíðunum og ein kom þeim í opna skjöldu. Í byrjun myndarinnar kyssir persóna Atla Óskars annan strák og var hann spurður að því hvort kossinn hafi verið raunverulegur eða hvort um tölvugrafík hafi verið að ræða.

Órói verður sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim á næstunni. Þessa dagana er verið að sýna hana í Portúgal, í júní verður hún sýnd í Edinborg og í júlí ferðast hún til Seúl í Suður-Kóreu. Í haust verður hún svo sýnd í Varsjá í Póllandi og í fleiri löndum Evrópu. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.