Lífið

Bond bað um Sjálfstætt fólk

Daniel Craig óskaði eftir eintaki af Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness en fékk ekki.
Daniel Craig óskaði eftir eintaki af Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness en fékk ekki.
Kvikmyndaleikarinn Daniel Craig, betur þekktur sem James Bond, spurði um bókina Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness í bókabúð í bænum Oswestry í Shropshire-sýslu á Englandi fyrir skömmu.

Craig kom starfsfólki og viðskiptavinum búðarinnar heldur betur í opna skjöldu þegar hann leit þar við. Ein af starfskonunum, Louisa Jones, sagði að það hefði verið óraunverulegt að líta upp og afgreiða þennan fræga leikara. „Hann kom í búðina í síðustu viku og ég trúði því ekki þegar ég leit upp og sá hann,“ sagði hún. „Þetta er viðkunnanlegur náungi, mjög venjulegur. Ég trúi því ekki að ég hafi afgreitt hann,“ bætti hún við. „Þetta var mjög spennandi fyrir okkur. Hann er með æðislega rödd og við höfum ekki enn jafnað okkur á þessu.“

Craig keypti vísindaskáldsöguna Surface Detail eftir Iain M. Banks og spurði um Sjálfstætt fólk, sem var ekki til. Bókabúðin hefur þegar brugðist við fyrirspurn Craigs og hefur núna reddað sér eintaki í von um að hann snúi aftur til að kaupa hana.

Faðir Craigs, Tim, býr skammt frá Oswestry, í bænum Whittington, og talið er að leikarinn hafi verið í heimsókn. „Þegar hann gekk út úr búðinni vorum við að spá í að fá mynd af honum en vildum frekar vera svöl og kurteis. Hann er líklegri til að koma til baka ef við erum kurteis,“ sagði Jones.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.