Lífið

Sprengja fannst rétt hjá tónleikastað Diktu í Berlín

Meðlimir Diktu sluppu heilir á húfi eftir að risastór sprengja var aftengd skammt frá tónleikastað þeirra.
Meðlimir Diktu sluppu heilir á húfi eftir að risastór sprengja var aftengd skammt frá tónleikastað þeirra.
„Við erum allir á lífi og allir með tíu fingur og tíu tær,“ segir Haukur Heiðar Hauksson, söngvari Diktu.

 

250 kílógramma sprengja úr síðari heimsstyrjöldinni fannst rétt hjá tónleikastað hljómsveitarinnar í Berlín á fimmtudagskvöld. Fyrir vikið voru allar nærliggjandi götur rýmdar á meðan sprengjan var aftengd og Dikta varð að flytja tónleikana yfir á annan stað.

 

„Við komum til Berlínar í gær [á fimmtudag] og stigum út úr bílnum eftir 500 km akstur. Það fyrsta sem við heyrðum var SMS í símanum um að það væri búið að loka öllu hverfinu,“ segir Haukur Heiðar. „Við bjuggumst við því að þetta væri Al Kaída eða eitthvað slíkt en þetta reyndist vera sprengja úr seinni heimsstyrjöldinni sem var búin að vera þarna í 65 ár. Og þeir þurftu endilega að finna hana í gær [fimmtudag].

 

Sprengjan fannst um tíu metra frá tónleikastaðnum Magnet í ánni Spree þar sem framkvæmdir stóðu yfir á brú. Það gerist nokkuð reglulega að sprengjur finnast í Þýskalandi og talið er að í Berlín einni séu um þrjú þúsund sprengjur grafnar undir borginni. „Fyrst héldum við að við þyrftum að aflýsa tónleikunum en með ótrúlegum klækjabrögðum tókst tónleikabókaranum okkar að færa tónleikana á annan stað í sama hverfi,“ segir Haukur Heiðar.

 

Þeir félagar lentu í annarri uppákomu sama dag þegar þeir áttu að fara í útvarpsviðtal í miðborg Berlínar. Þar var einnig búið að loka öllum götum vegna mótmæla en fyrst óttuðust Diktu-liðar að önnur sprengja hefði fundist þar. „Við þurftum að hlaupa út úr leigubílnum og hlaupa einhverjar götur fram og til baka til að leita uppi þessa útvarpsstöð. Þetta var gríðarlega skrítinn dagur í Berlín.“

 

Tónleikarnir í höfuðborginni voru þeir síðustu á tveggja vikna ferðalagi Diktu um Þýskaland sem var farið til að kynna plötuna Get It Together. Hún kom út á vegum fyrirtækjanna Smarten-Up og Rough Trade í Evrópu 11. mars. Núna er sveitin stödd í Árósum í Danmörku þar sem hún spilar á Spot-hátíðinni. „Við erum komnir í aðeins öruggara umhverfi,“ segir Haukur, feginn að vera laus við öll vandræðin í Berlín. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.