Enski boltinn

Bandaríski landsliðsþjálfarasonurinn á leið til Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Bradley.
Michael Bradley. Mynd/Nordic Photos/Getty
Aston Villa mun fá bandaríska miðjumanninn Michael Bradley á láni frá þýska liðinu Borussia Moenchengladbach til enda þessa tímabils en Bradley er mættur á Villa Park til þess að ganga frá sínum málum.

Michael Bradley er 23 ára gamall sonur Bob Bradley sem er núverandi þjálfari bandaríska landsliðsins. Bradley hefur verið lykilmaður í landsliðinu síðan 2006en hann er búinn að spila 50 landsleiki og skora í þeim átta mörk.

Bradley lenti í útistöðum við Michael Frontzeck, þjálfara Gladbach, fyrr á þessu tímabili en var farinn að spila á nýjan leik. Hann hefur skorað 3 mörk og gefið 3 stoðsendingar í 19 deildarleikjum á þessu tímabili.

Bradley gæti gert lengri samning við Aston Villa sanni hann sig fyrir stjórnanum Gerard Houllier. „Hann er bara 23 ára gamall og er vinnusamur miðjumaður sem getur skorað mörk," sagði Gerard Houllier.

Houllier hefur verið duglegur í þessum félagsskiptaglugga því hann hefur þegar fengið Darren Bent, Jean Makoun og Kyle Walker (á láni) til félagsins í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×