Innlent

Finnst heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni

„Ég vil bara að hún fái aukna sjúkraþjónustu," segir Páll Blöndal, sem hefur tvívegis þurft að horfa upp á 87 ára gamla móður sína fá heilablóðfall. Í annað skiptið lá hún meðvitundarlaus yfir nótt í eigin ælu. Það var nokkrum mánuðum eftir að honum var synjað um að fá aukna sjúkraþjónustu fyrir móður sína.

Móðir Páls, Ester Snæbjörnsdóttir, fékk heilablóðfall fyrst í mars, þar sem hún dvelur ein í þjónustuíbúð á elliheimilinu í Seljahlíð. Hún fannst meðvitundarlaus nokkru síðar. Páll segir í samtali við Vísi að honum hafi þá þegar verið ljóst að það væri erfitt fyrir hana að sjá um sig sjálfa. Hann segir heimilið í Seljahlíð afar gott, en það geti ekki sinnt móður hans sem skyldi.

Hann sótti því um aukna aðstoð eftir fyrra heilablóðfallið en að lokum var honum hafnað. Meðal annars vantaði undirskrift hjúkrunarfræðings.

„Þeir mátu það þannig að hún gæti séð um sig sjálfa, það er eins og viðmiðin hafi bara verið lækkuð," segir Páll og bæti við: „En það var viðbúið að hún gæti fengið heilablóðfall aftur og auðvitað gerðist það aftur."

Páli var verulega brugðið þegar það var hringt í hann á dögunum og honum tilkynnt að það hefði þurft að færa hana upp á spítala vegna heilablóðfalls. Þegar hann sá móður sína var honum ofboðið. Hún var öll skorin og hafði legið í eigin ælu alla nóttina.

„Þessi kona er tíu barna móðir og hefur greitt skatta alla sína ævi," segir Páll sem finnst heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni.

Páll segir móðir sína í verulega vondu ástandi. Hún þekki hann varla. „Það gagnast mömmu líklega lítið núna en ég vona að ríkið breyti einhverju þannig svona lagað endurtaki sig ekki," segir Páll.

Heilbrigðiskerfið hefur sannarlega brugðist Ester og fjölskyldu, því bróðir Páls, Snæbjörn Sigurbjörnsson fékk ekki meðferð við geðveiki sinni í um 20 ár, eins og Kastljós fjallaði um á dögunum. Þar var fjallað um hryllilega sögu Snæbjörns sem dvaldi meðal annars ósakhæfur í 12 ár á Litla Hrauni þar sem engin tilhlýðileg meðferð var til fyrir geðsjúka afbrotamenn um miðja síðustu öld.

Páll er reiður vegna örlaga móður sinnar. „Það er bara skömm af þessu," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×