Lífið

Íslendingar á The Great Escape

Lára Rúnarsdóttir spilar á hátíðinni The Great Escape ásamt Ólöfu Arnalds og Retro Stefson.fréttablaðið/stefán
Lára Rúnarsdóttir spilar á hátíðinni The Great Escape ásamt Ólöfu Arnalds og Retro Stefson.fréttablaðið/stefán
Hljómsveitin Retro Stefson og tónlistarkonurnar Lára Rúnarsdóttir og Ólöf Arnalds koma fram á tónlistarhátíðinni The Great Escape í Brighton á Englandi í næstu viku.

Lára er að spila á hátíðinni í fyrsta sinn og hlakkar mikið til. „Það er frábært að fá að spila svona úti,“ segir hún. Eftir tónleikana fimmtudaginn 12. maí spilar hún ásamt hljómsveit sinni á tveimur stöðum í London á föstudags- og laugardagskvöld. „Þetta verða rosalega ólík gigg að mér skilst,“ segir Lára, sem er að undirbúa nýja plötu sem kemur líklega út síðar á þessu ári.



Bransahátíðin The Great Escape hefur verið leiðandi í kynningu nýrrar og spennandi tónlistar og þykir gefa góða vísbendingu um hvað verður helst á baugi í tónlistinni næstu misserin. Á meðal íslenskra hljómsveita sem hafa spilað þar eru Benni Hemm Hemm, Stórsveit Nix Noltes og Seabear.

Til að hita upp fyrir hátíðina spilar Lára á Café Rosenberg í kvöld ásamt Lay Low. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 og kostar 1.000 krónur inn. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.