Enski boltinn

Jafnt í Merseyside-slagnum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Raul Meireles fagnar marki sínu í dag.
Raul Meireles fagnar marki sínu í dag. AFP
Liverpool og Everton skildu jöfn í grannaslagnum á Anfield í dag. Bæði lið skoruðu tvö mörk í hörku leik.

Liverpool var miku betra í fyrri hálfleiknum og munaði um Fernando Torres sem var mjög sprækur. Hann var búinn að skjóta einu sinni eftir 20 sekúndur og hann skaut svo í stöngina eftir fimmtán mínútna leik.

Hann hefði reyndar getað gefið boltann á Raul Meireles sem var fyrir opnu marki en að framherja hætti skaut hann þess í stað.

En Meireles fékk annað tækifæri. Eftir skalla Dir Kuyt sem Tim Howard varði, skaut Kuyt aftur í Howard áður en boltinn barst á Meireles sem tók við boltanum og þrumaði honum í hornið.

Vel að verki staðið og Kenny Dalglish fagnaði sem óður maður á bekknum, með stuðningsmönnum Liverpool.

Torres skapaði svo fleiri hættur en Everton gekk illa að ógna. Pepe Reina þurfti aldrei að taka á stóra sínum þrátt fyrir að nokkrar hættur hafi skapast.

Torres snerti boltann 32 sinnum í hálfleiknum, jafn oft og í öllum leiknum gegn Wolves fyrir skömmu þar sem hann leit út fyrir að vera með hausinn í Madríd en ekki í leiknum.

Staðan var 1-0 í hálfleik.

En eftir aðeins 40 sekúndur í seinni hálfleik hafði Everton jafnað. Liverpool gaf horn og Martin Skrtel var úti á þekju í dekkningunni. Sylvain Distan nýtti sér það og stangaði hornspyrnuna inn. Vel gert hjá Everton og staðan orðin 1-1.

Og það leið ekki á löngu að slök vörn Liverpool hleypti Everton yfir, aftur var það hinn glórulausi Skrtel sem fór illa að ráði sínu. Jermaine Beckford fékk boltann og kláraði færið mjög vel.

Everton skyndilega komið yfir eftir að Liverpool hafði verið betri aðilinn í fyrri hálfleik.

Howard gerði sig svo sekan um klaufaleg mistök þegar hann tók Maxi Rodriguez niður í teignum um miðbik seinni hálfleiksins. Dirk Kuyt skoraði örugglega úr vítinu.

Leikurinn fjaraði svo út og lauk með 2-2 jafntefli sem Everton-menn eru eflaust mun ánægðari með en rauðir erkifjendur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×