Erlent

Jamie Oliver bannað að heimsækja mötuneyti í Los Angeles

Jamie er allt annað en sáttur með ákvörðun fræðsluyfirvalda í Los Angeles. Mynd/AFP
Jamie er allt annað en sáttur með ákvörðun fræðsluyfirvalda í Los Angeles. Mynd/AFP
Breska sjónvarpskokknum Jamie Oliver og tökuliði hans hefur verið meinaður aðgangur að skólum í Los Angeles. Til stóð að Jamie myndi heimsækja nokkra grunnskóla og skoða sérstaklega mötuneyti þeirra í tengslum við nýjan raunveruleikaþátt sem sýndur verður ABC-sjónvarpsstöðinni. Í þáttaröðinni ferðast Jamie til nokkurra af „óheilbrigðustu borgum“ Bandaríkjanna, líkt og það er orðað.

Fyrirmynd ABC er sjónvarpsþáttaröðin Jamie's School Dinners sem sýndur var fyrir nokkrum árum. Þar fór Jamie milli breskra skóla og gerði óformlegar úttektir á eldamennsku og matseðlum skólamötuneyta, en hann átti ekki orð fyrir yfir óþverrann í pottunum sem þar var að finna. Þáttaröðin vakti mikla athygli og varð meðal annars til þess að Jamie fundaði með ráðmönnum um leiðir til að gera bragarbót á.

Fræðsluyfirvöld í Los Angeles fengu bakþanka eftir að framleiðsla þáttanna hófst og hafa nú alfarið meinað Jamie að heimasækja skólanna. „Við viljum ekki að skólarnir okkar verði hluti af raunveruleikaþætti," segir talsmaður fræðsluyfirvalda í borginni.

Sjálfur segist Jamie vera vonsvikinn með ákvörðunina. Hann segir ljóst að fræðsluyfirvöld í Los Angeles hafi óttast að skólamötuneytin myndu ekki koma vel út í þáttaröðinni og af þeim sökum hafi verið gripið til þess ráðs að banna honum að heimsækja skólanna ásamt tökuliði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×