Innlent

Árborg selur eignir og lækkar skuldir

Á myndinni eru frá vinstri talið Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, Samúel Smári Hreggviðsson, formaður sóknarnefndar og sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur.
Á myndinni eru frá vinstri talið Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, Samúel Smári Hreggviðsson, formaður sóknarnefndar og sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur.
Sveitarfélagið Árborg hefur undanfarið seltt nokkrar eignir í því skyni að grynnka á skuldum. Í dag var undirritaður samningur við Stokkseyrarkirkju um kaup á Hafnargötu 10 á Stokkseyri. Í tilkynningu segir að húsið muni nýtast fyrir ýmsa starfsemi á vegum kirkjunnar.

„Í gær var gengið frá samningi um kaup á húsnæði fyrir Björgunarsveit Árborgar. Um er að ræða hluta af Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Björgunarfélagið keypti þann hluta byggingarinnar sem hýsir starfsemi þess, og er hluti rýmisins ætlaður til nota sem sameiginleg stjórnstöð fyrir Almannavarnanefnd og viðbragðsaðila. Brunavarnir Árnessýslu og sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hafa einnig sínar starfsstöðvar í húsinu, sem tekið var í notkun fyrr á þessu ári,“ segir ennfremur.

Þá er þess getið að fyrr á þessu ári seldi sveitarfélagið fasteign að Austurvegi 52 á Selfossi, þar sem áður var rekin slökkvistöð. „Alls hefur Sveitarfélagið Árborg því selt fasteignir fyrir 96 milljónir króna á árinu 2011.“

„Þessir samningar eru í anda þess sem ákveðið hefur verið í rekstri sveitarfélagsins þar sem húsnæði sem er nýtt af öðrum aðilum en sveitarfélaginu sjálfu er selt. Skuldsetning sveitarfélagsins náði hámarki árið 2009 þegar hún var 209% af tekjum en nú er stefnt að því að þetta hlutfall lækki talsvert á yfirstandandi ári. Nýlega var samþykkt samhljóða í bæjarráði að taka saman yfirlit yfir allar söluhæfar eignir og halda markvisst áfram þessu starfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×