Innlent

Vont veður og líkamsárásir á Suðurlandi

Selfoss.
Selfoss.
Maður var sleginn í höfuðið með glasi utan við skemmtistaðinn Hvíta húsið á Selfossi aðfaranótt sunnudags samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi.  Maðurinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Selfossi þar sem gert var að sárum hans.

Sömu nótt átti sér stað önnur líkamsárás í Hvíta húsinu. Sú árás var með þeim hætti að tveir karlmenn höfðu átt í orðaskiptum inni á skemmtistaðnum og þeim lauk með því annar þeirra lyfti hnefa og sló hinn nokkur hnefahögg í andlitið sem hlaut við það mar og skrámur.

Í hvert sinn sem snjókoma og óveður gengur yfir aukast verkefni lögreglunnar á Selfossi talsvert vegna vandræða í umferðinni. Á því varð engin breyting síðasta föstudag þegar margir ökumenn lentu í vandræðum á Hellisheiði, Kömbum og í Þrengslum. 

Á slíkum stundum nýtur almenningur og lögregla góðs af björgunarsveitum svæðanna, en þeir komu ökumönnum til hjálpar.

Lögreglumenn stöðvuðu svo ökumann jeppabifreiðar sem var á ferð um Gaulverjabæjarveg um helgina.  Hann var grunaður um að vera með litaða dísilolíu á eldsneytistanki jeppans.  Sýni var tekið og reyndist vera um litaða olíu að ræða.  Sýnin verða send í frekari rannsókn.

Ungur karlmaður var síðan stöðvaður í Hveragerði um helgina. Í fórum hans fannst lítilræði af  marihuana. Maðurinn mun verða ákærður fyrir vörslu efnisins. 

Tilkynnt var um tólf umferðaróhöpp og slys til lögreglunnar á Selfossi.  Allt voru þetta minni háttar óhöpp sem flest tengdust færð og veðri.

Tveir ungir karlmenn voru svo handteknir í Hveragerði aðfaranótt laugardags grunaðir um ölvunarakstur. Eigandi bifreiðarinnar hafði misst stjórn á bifreiðinni og hafnaði í snjóskafli þar sem bifreiðin festist. Félagi hans sat undir stýri að reyna sig við að losa bifreiðina úr festunni þegar lögreglu bar að.  Blóðsýni var tekið frá þeim báðum og þeir verða kærðir fyrir ölvunarakstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×