Fréttastofa hefur greint frá því að í samningi sem eignarhaldsfélagið Portus, rekstraraðili Hörpunnar, gerði við Ólaf árið 2006, vegna hönnunar á glerhjúpnum, eru trúnaðarákvæði.
Portus var á þessum tíma í eigu Nýsis og Landsbankans. Eigendur Portusar nú eru hins vegar íslenska ríkið og Reykjavíkurborg.

Ekki er óalgengt að hönnunarkostnaður við slíka byggingu sé tíu prósent, og jafnvel tuttugu prósent af heildarkostnaði. Þannig má reikna með að Ólafur hafi fengið hundruð milljóna króna fyrir hönnunina.
Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, sagði í viðtali nú fyrir helgina að vegna trúnaðarákvæðisins gæti Portus ekki upplýst um endanlegan kostnað við glerhjúpinn þar sem greiðslur til Ólafs væru alltaf undanskildar. „Við getum ekki gert það einhliða en ef Ólafur Elíasson myndi vilja gera það þá hefði hann okkar heimild," sagði Pétur á Stöð 2 þann 17. mars.
Fréttastofa leitaði því eftir þessum upplýsingum frá Ólafi sjálfum.
Portus gerði samninginn við fyrirtæki Ólafs, Studio Olafur Eliasson, sem er í Þýskalandi. Starfsmaður fyrirtækisins tók að sér að svara erindi blaðamanns um greiðslurnar, fyrir hönd Ólafs.
Svarið er birt hér að neðan á ensku, eins og það barst blaðamanni.