Erlent

Rannsaka kynferðislega áreitni í Yale-háskólanum

Yale.
Yale.
Yale háskólinn í Bandaríkjunum sætir alríkisrannsókn vegna kynferðislegs áreitis nemenda í skólanum samkvæmt fréttavef New York Post. Þar kemur fram að rannsóknin fari fram vegna kvartana fjölmargra stúlkna sem sækja nám í skólanum.

Kvörtunarefnið er hegðun eins bræðrafélagsins, sem heitir Delta Kappa Epsilon, en í október á síðasta ári stóðu þeir fyrir framan heimavist stúlknanna og kyrjuðu ósmekkleg slagorð. Meðal annars sögðu þeir á frummálinu: "No means yes! Yes means anal!"

Að auki hefur listi með 53 stúlkum í skólanum farið fyrir brjóstið á nemendum. Bræðralagsfélagarnir meta þá hversu marga bjóra þeir þyrftu að drekka áður en þeir svæfu hjá stúlkunum á listanum.

Alls hafa 16 nemendur kvartað undan hegðun bræðrafélagsins og liggja skólayfirvöld undir ámæli fyrir að leyfa svona hegðun að viðgangast í Yale, sem er einn virtasti háskóli veraldar.

Skólayfirvöld segjast taka málið mjög alvarlega.

Málið kemur upp á versta tíma fyrir skólann, því fyrir mánuði síðan rannsakaði lögreglan veisluhöld þar sem áfengi var neytt ofan í ungmenni með þeim afleiðingum að þau þurftu að leita læknishjálpar.

Svo má reyndar til gamans geta að fjölmargir leiðtogar í bandarískum stjórnmálum hafa útskrifast úr háskólanum. Með þeim frægari er Georg W. Bush yngri, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sem og Bill Clinton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×