Innlent

Tappinn skrúfaður í flöskur Klettavatns

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ræsti vélar Gosverksmiðjunnar fyrir tæpu ári. Fréttablaðið/vilhelm
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ræsti vélar Gosverksmiðjunnar fyrir tæpu ári. Fréttablaðið/vilhelm
Framleiðsla á gosdrykkjum úr íslensku vatni undir merkjum Gosverksmiðjunnar Kletts í Reykjavík var lögð niður í ágúst og starfsfólk sent heim. Viðræður um endurfjármögnun fyrirtækisins standa nú yfir. Óvíst er hvenær viðræðum lýkur og framleiðsla kemst í gang á ný.

Gosverksmiðjan Klettur hóf framleiðslu á gosdrykkjum með pompi og prakt undir merkjum KlettaGOSS og KlettaVATNS í desember í fyrra. Lögð var áhersla á að um íslenska framleiðslu væri að ræða og ekki stefnt að útflutningi vatnsins. Verðið var lægra en á öðrum gosdrykkjum og stefnt að því að auka fjölbreytni á drykkjavörumarkaði.

Þeir sem Fréttablaðið ræddi við segja fyrirtækið hafa farið af stað með of lítið eigið fé og hafi fljótlega þurft að kalla eftir nýju hlutafé til að halda framleiðslunni áfram. Þessu til viðbótar mun samkeppnin við Ölgerðina og Vífilfell á gosdrykkjamarkaðnum hafa verið erfiðari en stjórnendur Kletts reiknuðu með.

Þegar rekstur hófst í Gosverksmiðjunni Kletti var fyrirtækið í eigu 25 einstaklinga, þeirra á meðal helstu starfsmanna ásamt vinum og fjölskyldum. Í tilkynningu fyrirtækisins sem gefin var út í tilefni af opnuninni fyrir tæpu ári kom fram að í hluthafahópnum væri enginn fagfjárfestir og enginn þekktur fjárfestir. Forðast hefði verið að taka lán til rekstrarins. Ekki liggur fyrir nú hvernig hlutafé skiptist. Eftir því sem næst verður komist hefur einhver hluti þess skipt um hendur.

Hvorki fyrrverandi né núverandi stjórnarmenn Gosverksmiðjunnar Kletts vildu tjá sig um málefni fyrirtækisins í samtali við Fréttablaðið í gær. Þeir vísuðu á Guðmund H. Magnason, sem sagður er stjórnarformaður. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar. Enginn framkvæmdastjóri er lengur skráður hjá fyrirtækinu. Ekki var heldur svarað í síma í Gosverksmiðjunni.

jonab@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×