Lífið

Flytur með fjölskyldu sína í Hrafnabjörg á næsta ári

Hrafnabjörg við Eyjafjörð er eitt glæsilegasta hús landsins. Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, lét byggja húsið á sínum tíma.
Hrafnabjörg við Eyjafjörð er eitt glæsilegasta hús landsins. Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, lét byggja húsið á sínum tíma.
„Já, ég keypti húsið fyrir skömmu," segir hinn svissneski Thomas Martin Seiz.

Seiz er nýr eigandi Hrafnbjarga, sem var áður í eigu Jóhannesar Jónssonar, kenndan við Bónus, og er eitt af glæsilegustu einbýlishúsum landsins. Seiz segist í samtali við Fréttablaðið ætla að flytja inn í húsið á næsta ári ásamt fjölskyldu sinni. „Við erum að laga innréttingar og breyta einu og öðru," segir hann.

Thomas Seiz rekur tvö tölvufyrirtæki í heimalandi sínu ásamt því að reka ferðaþjónustu á Nolli í Eyjafirði. Í frétt DV í apríl kom fram að svissneskur auðkýfingur hafi keypt hús Jóhannesar, en Seiz segir þá fullyrðingu ekki standast. „Ég er ekki að safna húsum og ég er ekki auðkýfingur eins og sagt var í DV," segir hann. Seiz leigir út tvö sumarhús á sveitabænum Nolli í Eyjafirði. Þá á hann tvö íbúðarhús í Grenivík, annað er leigt út en hitt verður mögulega rifið til að koma fyrir nýju húsi.

Salan á Hrafnabjörgum vakti mikla athygli í apríl, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins borgaði Seiz hátt í 200 milljónir fyrir húsið. Skilanefnd Landsbanka Íslands leysti til sín húsið í desember í fyrra, en það var áður í eigu Gaums, eignarhaldsfélags feðganna Jóhannesa Jónssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Arkitektinn Fanney Hauksdóttir teiknaði Hrafnabjörg. Hún sagði í samtali við Fréttablaðið í apríl húsið vera einstakt að mörgu leyti. „Það var mikið lagt í húsið. Mikill metnaður," sagði hún.

Ekkert var til sparað við byggingu hússins og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var kostnaðurinn hátt í 400 milljónir. Húsið er á tveimur hæðum og á efri hæðinni mynda stofan, borðstofan og eldhúsið eitt stórt og opið rými. Gólfsíðir útsýnisgluggar eru í stofunni ásamt arni. Á neðri hæðinni má meðal annars finna tæknirými, líkamsræktaraðstöðu og tvö baðherbergi. Fyrir utan er 40 fermetra sundlaug og stór heitur pottur. atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.