Innlent

Fimm manns dvelja á réttargeðdeildinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fimm manns dvelja á réttargeðdeildinni sem nú er staðsett á Sogni.
Fimm manns dvelja á réttargeðdeildinni sem nú er staðsett á Sogni.
Fimm manns dveljast nú á réttargeðdeildinni að Sogni, allt karlmenn. Þeir eru á aldrinum 25-45 ára og er meðalaldurinn 31 ár. Þeir sjúklingar sem þar dveljast eru undir nánu eftirliti göngudeildar réttargeðdeildarinnar á Kleppi. Þetta kom fram í máli Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra í sérstakri umræðu um málefni ósakhæfra brotamanna sem fram fór á Alþingi í morgun. Það var Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sem tók umræðuna upp. Hún spurði hvernig réttindi ósakhæfra fanga væru tryggð og hvernig öryggis almennings væri gætt. Hún sagði að málefni ósakhæfra brotamanna hefði verið í miklum ólestri allt þar til réttargeðdeildin Sogn var sett á fót árið 1991.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók jafnframt þátt í umræðunum. Hann sagði að þessi hópur manna ættu sér fáa málsvara. Það gæti ef til vill að hluta til skýrt hvers vegna málefni þessa hóps hefði verið í svo miklum ólestri í svo langan tíma. „Menn verða að spyrja sig að því hvað er hægt að gera betur, faglega og fjárhagslega. Ákvarðanir í þessum efnum verða menn að taka af yfirvegun og af varfærni, vegna þess um hversu viðkvæman málaflokk er að ræða,“ sagði Birgir.

Eins og fram hefur komið stendur til að loka réttargeðdeildinni að Sogni og að deildin starfi í framtíðinni á Kleppi. Björgvin G Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lögðu áherslu á það að starfsemi réttargeðdeildarinnar hefði reynst vel. „Þess vegna verða að liggja mjög máttugar forsendur fyrir því að breyta því fyrirkomulagi sem svo vel hefur reynst,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×