Innlent

Rektor hafnar gagnrýni lífrænna bænda

Starfsemi ORF í hátæknigróðurhúsinu Grænu smiðjunni í Grindavík hefur fyrir löngu sprengt utan af sér. mynd/orf
Starfsemi ORF í hátæknigróðurhúsinu Grænu smiðjunni í Grindavík hefur fyrir löngu sprengt utan af sér. mynd/orf
Verndun og ræktun (VOR) gagnrýna harðlega þau áform Landbúnaðarháskólans að leigja sérbyggt gróðurhús skólans að Reykjum í Ölfusi til ræktunar á erfðabreyttum lyfjaplöntum. VOR telur að með þessu sé skólinn að fara „alvarlega út fyrir hlutverk sitt og þá meginskyldu að styðja við og efla sjálfbæran landbúnað og matvælaframleiðslu á Íslandi“.

Þetta kemur fram í bréfi sem VOR, sem er félag framleiðenda í lífrænum búskap, hefur sent Ágústi Sigurðssyni, rektor Landbúnaðarháskólans, en þar kemur eins fram það sjónarmið að með því að leigja húsið sé verulega dregið úr möguleikum skólans til að stunda rannsóknir sem ýtt geti undir nýsköpun og þróun tækifæra fyrir ræktendur á Íslandi.

Ágúst segir gagnrýni VOR á leigu gróðurhússins ekki eiga sér neina stoð. „Við erum með mjög fullkomið gróðurhús að Reykjum, og í því eru níu hólf eða klefar. Þeim er öllum hægt að stýra og vinna með einangruð garðyrkjuverkefni. Það sem stendur til að leigja ORF er aðeins einn þessara klefa, svo átta nýtast skólanum áfram. Það er langt frá því að allt gróðurhúsið fari undir þetta. Ástæðan fyrir leigunni er sú að stundum leigjum við út klefa til skamms tíma fyrir verkefni sem tengjast okkur. Þetta er dæmi um slíkt verkefni.“

VOR segir jafnframt í bréfinu að ummæli og skrif starfsmanna skólans lýsi „fádæma vanþekkingu og vanþóknun á lífrænum búskaparháttum“ og skólinn þurfi að skýra afstöðu stofnunarinnar og fyrirætlanir í kennslu og rannsóknum í þágu lífrænna búskaparhátta. Ágúst segir að lífræn ræktun sé ekki hornreka í starfi skólans eins og gefið sé í skyn en það sé eðli háskólastarfs að fólk hafi ólíkar hugmyndir og rökræði á þeim forsendum. „Fólk er ekki sammála og þetta er dæmi um mál sem mikið er rætt. Hvað lífræna ræktun varðar greinir fólk, held ég, ekki á um takmarkið: umgangast náttúruna með sjálfbærum hætti og lágmarka áníðslu á okkar jörð. Hins vegar á annað við um leiðir.“

Skólinn hyggst leigja ORF Líftækni húsið, en ORF ræktar erfðabreytt bygg sem nýtt er meðal annars til framleiðslu á snyrtivörum. Gróðurhúsið að Reykjum var byggt 2001 til rannsókna og þróunarstarfs fyrir garðyrkjubændur. svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×