Enski boltinn

United í undanúrslit eftir sigur á Arsenal

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Waney Rooney fagnar marki sínu í dag.
Waney Rooney fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos/Getty Images
Manchester United er komið í undanúrslit í ensku bikarkeppninni eftir góðan sigur á Arsenal, 2-0, á Old Trafford. Þetta er í 27. skipti sem United kemst í undanúrslit í enska bikarnum og eiga því enn möguleika á að vinna tvöfalt í vor.

Fabio Da Silva kom heimamönnum yfir á 28. mínútu. Waney Rooney átti frábæra sendingu á Javier Hernández sem skallaði að marki en Manuel Almunia varði vel. Fabio var hins vegar réttur maður á réttum stað og kom boltanum yfir línuna.

Arsenal var meira með boltann í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér mörg hættuleg færi. Besta færi Arsenal í fyrri hálfleik átti Samir Nasri en hann átti gott skot undir lok fyrri hálfleiks sem Edwin van der Sar varði vel.

Wayne Rooney tvöfaldaði forystuna fyrir heimamenn í upphafi síðari hálfleiks með hnitmiðuðum skalla. Rafael tók góðan sprett inn í teig Arsenal og átti sendingu fyrir markið sem varnarmenn Arsenal náðu ekki að hreinsa frá og Rooney skallaði boltann í netið.

Arsenal reyndi hvað þeir gátu til að komast á blað en allar sóknarlotur þeirra strönduðu á van der Sar sem var sem klettur í marki heimamanna. Marouane Chamakh fékk líklega besta færi Arsenal en van der Sar varði skalla hans.

Arsenal lék einum leikmanni færri síðustu mínúturnar eftir að svissneski varnarmaðurinn Johan Djourou varð að fara af velli vegna meiðsla en Arsene Wenger hafði þá nýtt allar þrjár skiptingarnar. Líklegt er að Djourou hafi farið úr axlalið og verður því frá keppni næstu vikurnar hið minnsta.

Antonio Valencia snéri aftur í lið Man. United eftir nokkra mánaða fjarveru vegna meiðsla. Hann lék síðari hálfleikinn og styrkir lið United nokkuð á lokasprettinum á keppnistímabilinu.

Man. United - Arsenal 2-0

1-0 Fabio (28.)

2-0 Wayne Rooney (49.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×