Enski boltinn

Sir Alex samdi við Serbana um að hvíla Nemanja Vidic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Vidic fórnar sér í alla bolta.
Nemanja Vidic fórnar sér í alla bolta. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gerði sitt í að tryggja það að liðið verði örugglega með annan aðalmiðvörð sinn kláran fyrir Manchester-slaginn á móti City á laugardaginn.

Ferguson náði samkomulagi við serbneska knattspyrnusambandið um að fyrirliðinn Nemanja Vidic fengi frí frá landsleik Serbíu og Ísraelsmanna í Tel Aviv í kvöld. Vidic getur því farið strax að einbeita sér að því að reyna að stoppa Carlos Tevez á Old Trafford en leikurinn fer fram í hádeginu á laugardaginn.

Rio Ferdinand verður ekki með í leiknum vegna kálfameiðsla og bæði Jonny Evans sem og Chris Smalling drógu sig út úr landsliðsverkefnum í vikunni vegna meiðsla. Meiðsli þeirra Evans og Smalling eru samt smávægileg og Ferguson mun væntanlega nota annan þeirra í stað þess að kalla á Wes Brown.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×