Erlent

Kominn í rammgert fangelsi dómstólsins

Þúsundir manna komu saman í gær í borginni Banja Luka í Bosníu til að mótmæla framsali Ratko Mladic til stríðsglæpadómstólsins. Nordicphotos/AFP
Þúsundir manna komu saman í gær í borginni Banja Luka í Bosníu til að mótmæla framsali Ratko Mladic til stríðsglæpadómstólsins. Nordicphotos/AFP
Ratko Mladic er kominn í fangelsi alþjóðlegs stríðsglæpadómstóls í Haag, þar sem hann verður leiddur fyrir dómara innan fárra daga. Hann var handtekinn í Serbíu á fimmtudag og framseldur í gær til Haag.

 

Sextán ár eru liðin síðan þáverandi aðalsaksóknari dómstólsins ákærði hann fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, meðal annars vegna fjöldamorðanna í Srebrenica árið 1995.

 

„Mladic er ákærður fyrir alvarlegustu glæpina gegn mannkyni og alvarlegustu brotin á alþjóðalögum,“ sagði Snezana Malovic, dómsmálaráðherra Serbíu, í gær þegar Mladic var framseldur. Hún sagði Serbíu með þessu uppfylla alþjóðlegar og siðferðilegar skyldur sínar.

 

Mladic var yfirmaður serbneska herliðsins í Bosníustríðinu árin 1992-95. Hermenn undir hans stjórn eru sakaðir um þjóðarmorð og fleiri stríðsglæpi á þessum tíma, þar á meðal morð á um 8.000 karlmönnum og drengjum við bæinn Srebrenica í júlí 1995 og ýmis voðaverk í tengslum við 44 mánaða langt umsátur um höfuðborgina Sarajevo.

 

„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir fórnarlömb þjóðarmorðsins,“ segir Munira Subasic, formaður samtaka þeirra sem lifðu af fjöldamorðin í Srebrenica. „Mladic er farinn og við trúum því að illskan heyrist á tali hans og hann muni segja sannleikann.“

 

Í Bosníu komu þúsundir stuðningsmanna Mladic saman í gær til að mótmæla framsali hans til stríðsglæpadómstólsins. Margir Serbar líta enn á hann sem þjóðhetju sem hafi barist hetjulega fyrir málstað þeirra í stríðinu.

 

„Örninn er farinn en hreiðrið er eftir,“ stóð á skiltum sem sumir þeirra báru.

Í gær, áður en hann var fluttur til Haag, fékk Mladic leyfi til þess að fara í stutta heimsókn að gröf dóttur sinnar í úthverfi Belgrad, höfuðborgar Serbíu. Hún stytti sér aldur árið 1994, þá 23 ára gömul, að sögn serbneskra fjölmiðla vegna þunglyndis í tengslum við þátttöku föður hennar í stríðinu. Mladic fór þangað í fylgd vopnaðra varða. Hann hafði lagt mikla áherslu á að fá að fara þangað, því hann hafði ekki getað heimsótt gröf dóttur sinnar meðan hann var í felum.

 

„Við vorum með myndavélar þar og sólarhingsgæslu þannig að hann hefði örugglega ekki getað látið sjá sig þar,“ segir Vladimir Vukcevic, aðalstríðsglæpasaksóknariSerbíu.

 

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×