Lífið

Hvítir miðaldra karlar í vanda

Kahn
Kahn
Mel Gibson, Lars Von Trier, Dominique Strauss Kahn, Charlie Sheen og Arnold Schwarzenegger. Allir eiga þessir menn það sameiginlegt að hafa haldið, á einum tímapunkti, að vald þeirra væri ótakmarkað, ímynd þeirra óhagganleg og þeir sjálfir ósnertanlegir. Annað hefur komið á daginn.

Dominique Strauss-Kahn (62 ára)

Framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins var handtekinn í New York vegna nauðgunar á hótelþernu. Hann var leiddur í járnum fyrir dómara í New York og látinn dúsa í einangrunarklefa á Rikers Island, þeim alræmda stað, en gengur nú laus gegn tryggingu. Í kjölfarið byrjuðu ormarnir að skríða upp úr gryfjunni sinni; honum var lýst eins og kynóðum simpansa, blaðakonur í Frakklandi viðurkenndu að þær þyrðu ekki að ræða við hann einslega og loks viðurkenndi dóttir guðdóttur framkvæmdastjórans að hann hefði reynt að þröngva henni til samræðis við sig. Dominique Strauss-Kahn er enginn venjulegur bankamaður; hann hefur verið heilinn í baráttunni gegn heimskreppunni og var sterklega orðaður við forsetaembætti Frakklands.

Lars Von Trier (55 ára)

Lars Von Trier er einn hæfileikaríkasti leikstjóri Evrópu. Kvikmyndum hans hefur verið hampað og hrósað af elítunni á kvikmyndahátíðum og stjörnurnar frá Hollywood sækjast eftir að vinna með honum. En sá tími gæti verið liðinn því Trier er búinn að koma sér út úr húsi hjá þeirri hátíð sem hefur elskað hann hvað heitast: Cannes. Ummæli hans um nasista, Adolf Hitler og Albert Speer vöktu sterk viðbrögð og framkvæmdastjórnin ákvað loks að henda honum út.

Arnold Schwarzenegger (63 ára)

Arnold Schwarzenegger var ein dáðasta kvikmyndastjarna heims áður en hann sneri sér, fremur óvænt, að því að stjórna áttunda stærsta efnahagskerfi heims. Addi Svakanaggur, eins og hann er gjarnan kallaður í Andrésblöðunum, hafði yfir sér ímynd hins fullkomna fjölskylduföður, giftur inn í eina elskuðustu fjölskyldu Ameríku; Kennedy. En Arnold þreifst ekki með einni konu, egó hans hafði víst taumlausa þörf til að hlaupa af sér horn og síðustu fréttir benda til þess að þernan á heimili þeirra hjóna hafi síður en svo verið eina ástkona kraftakarlsins.

Mel Gibson (55 ára)

Mel Gibson og vandræði hans hafa verið til staðar síðastliðið ár. Hann hefur staðið í heiftarlegri forræðisdeilu við fyrrverandi eiginkonu sína og verið grunaður um að hafa beitt hana heimilisofbeldi. Hann var handtekinn fyrir að keyra fullur og jós úr skálum reiði sinnar yfir gyðingum og þeirra fólki. Gibson stóð þá á hátindi ferils síns, var nánast ósnertanlegur og gat gert kvikmyndir á óskiljanlegum tungumálum en nú vill enginn ráða hann nema í b-spennumyndir.

Charlie Sheen (45 ára)

Charlie Sheen blótaði öllum í sand og ösku, hann trúði því auðvitað staðfastlega að sjónvarpsþátturinn Two and a Half Men gæti aldrei haldið áfram án hans. Hann gæti því hagað sér eins og hann vildi. En Sheen las spilin vitlaust, honum var sparkað og í ljós er komið að framleiðendur þáttanna sýndu honum einstaka þolinmæði, lánuðu honum tíu milljónir dala og þar fram etir götunum. Svo fór auðvitað að Sheen fékk sparkið og Ashton Kutcher var fenginn til að hlaupa í skarðið.

F48200511 Arnold
Gibson
F49200511 Charlie Sh





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.