Íslenski boltinn

Arnór Sveinn fer til Hönefoss - kvaddi Blika á twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Sveinn Aðalsteinsson fagnar hér marki með Blikum í sumar.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson fagnar hér marki með Blikum í sumar. Mynd/Pjetur
Arnór Sveinn Aðalsteinsson, leikmaður Breiðabliks, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Breiðablik í bili, því hann heldur til Noregs í dag til þess að skrifa undir samning við Hönefoss. Þetta kom fyrst fram á fótbolti.net.

Arnór kvaddi á twitter-síðunni sinn áfram en hann skoðaði aðstæður hjá Hönefoss um síðustu helgi. „Kveð Ísland í bili. Þakka öllum blikum fyrir frábæran tíma #Blikahjarta," skrifaði Arnór á twitter-síðuna sína.

Arnór er 25 ára gamall örfættur bakvörður sem hefur spilað allan sinn feril hjá Blikum. Hann hefur verið í kringum A-landsliðið undanfarin ár og var í leikmannahópnum á móti Ungverjalandi á dögunum.

Arnór er ekki eini Íslendingurinn hjá Hönefoss því þar spilar einnig Kristján Örn Sigurðsson. Liðið er í fjórða sæti í norsku b-deildinni, fimm stigum á eftir toppliði Sandnes Ulf.

 

Fréttatilkynning frá Breiðabliki:

Knattspyrnudeild Breiðabliks náði nú í morgun samkomulagi við norska félagið Hönefoss um lán á Arnóri Sveini Aðalsteinssyni til áramóta.

Knattspyrnudeildin harmar að geta ekki orðið fyrst til að flytja fréttir af atburðinum en sá sér ekki fært að tilkynna um félagaskiptin fyrr en öll atriði voru frágengin.

Arnór Sveinn hefur lengi stefnt á atvinnumennsku og stóð það til boða nú.

Knattspyrnudeild Breiðabliks samþykkti lán á leikmanninum eftir að Hönefoss gekk að skilmálum deildarinnar. Arnóri er óskað góðs gengis í Noregi á komandi mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×