Fjöldi leikja fór fram í ensku 1. deildinni í knattspyrnu í dag. Fjórir Íslendingar komu við sögu í leikjunum.
Heiðar Helguson kom inn á sem varamaður eftir 81 mínútu hjá QPR sem gerði markalaust jafntefli við Burnley. QPR er enn á toppi deildarinnar.
Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Coventry sem gerði markalaust jafntefli við Sheffield United. Coventry er í 11. sæti.
Ívar Ingimarsson spilaði allan leikinn fyrir Reading sem vann Doncaster örugglega 3-0. Reading komst þar með upp í 8. sætið í deildinni.
Hermann Hreiðarsson spilaði síðustu níu mínúturnar fyrir Portsmouth sem tapaði á ótrúlegan hátt fyrir Nottingham Forest á útivelli 2-1. Hann kom inn á fyrir Kanu í stöðunni 0-1 á 81. mínútu en Forest skoraði tvö mörk á lokasekúndunum og vann leikinn.
Gengi Portsmouth hefur verið slæmt, það liggur nú í 18. sæti deildarinnar, við botnbaráttuna sem er býsna hörð.
