Enski boltinn

Guðlaugs-áhrifin greinileg á gengi Hibernian

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson hefur slegið í gegn með skoska liðinu Hibernian en hann kom þangað frá Liverpool í janúarglugganum. Þórður Már Sigfússon á fótbolti.net hefur tekið saman ótrúlega breytingu á gengi Hibs-liðsins síðan að íslenski 21 árs landsliðsmaðurinn mætti á staðinn.

Hibernian var í ellefta sæti af tólf liðum og aðeins búið að fá 16 stig úr 22 leikjum þegar Guðlaugur Victor kom til liðsins í lok janúar.

Guðlaugur Victor hefur spilað sex leiki með Hibernian-liðinu og liðið hefur unnið fimm af þeim og því fengið fimmtán stig. Guðlaugur hefur spilað alla leiki frá upphafi til enda og skoraði eitt mark í 2-1 sigri á Kilmarnock.

Þetta þýðir að liðið hefur hækkað sig um þrjú sæti og situr nú í áttunda sæti deildarinnar. Næst á dagskrá er leikur á móti St. Johnstone á útivelli á morgun en liðin eru með jafnmörg stig.

„Hvort innkoma Guðlaugs í liðið hafi haft þessi gífurlega sterku áhrif skal ósagt látið en skoskir fjölmiðlar eru á einu máli um að hann hefur styrkt miðjuspil liðsins til muna. Hann myndi sterkan varnarskjöld fyrir framan miðverðina auk þess sem hann sé sterkur fram á við," segir Þórður í grein sinni.

Tölfræðin talar sínu máli. Liðið fékk aðeins 0,7 stig að meðaltali í leik áður en Guðlaugur Victor kom en hefur hinsvegar náð í 2,5 stig að meðaltali í leik með Íslendinginn innanborðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×