Lífið

Risaverk nema Myndlistaskólans

Útskriftarnemar í teikningu hafa unnið að þessu risavaxna verki síðustu daga en þegar sýningunni lýkur verður málað yfir það. fréttablaðið/vilhelm
Útskriftarnemar í teikningu hafa unnið að þessu risavaxna verki síðustu daga en þegar sýningunni lýkur verður málað yfir það. fréttablaðið/vilhelm
Nemar við Myndlistaskólann í Reykjavík opna í sýningu í dag og hafa af því tilefni málað risavaxið verk á vegg í sýningarsalnum.

"Fólk ætti endilega að gera dag úr þessu, taka fjölskylduna með, fara í ísbíltúr og kíkja á myndlistarsýningu," segir Bergrún Íris Sævarsdóttir, nemi í teikningu frá Myndlistaskóla Reykjavíkur.

Nemendur við Myndlistaskólann í Reykjavík opna sumarsýningu á verkum sínum í Gömlu útgerðinni við Grandagarð 16 í dag klukkan 17. "Þetta er í rauninni yfirlitssýning yfir það sem við höfum verið að gera í ár," segir Bergrún.

Teiknideildin hefur unnið að risavöxnu verki í sýningarrýminu undanfarna daga sem er að sögn Bergrúnar bæði súrrealískt og skemmtilegt.

Hvað verður svo um myndina?

"Við þurfum að mála yfir hana á þriðjudaginn."

Er það ekki súrt?

"Jú, vegna þess að hún verður alltaf flottari og flottari. Fólk grætur á meðan það tekur myndir af henni. Það er erfitt, en svona er listin."

Getið þið ekki tekið vegginn með ykkur?

"Nei, því miður. Það væri svo sem ekki hægt að geyma hann neins staðar. Þetta er dásamlega tímabundið verk og það er um að gera að koma á sýninguna um helgina til að sjá það."

Fjölbreyttur hópur sýnir verk á sýningunni sem stendur yfir þangað til á mánudaginn. "Það eru mjög ólík verk – innsetningar og skúlptúrar," segir Bergrún. "Svo eru praktískari hlutir eins og vefnaður og nytjahlutir. Loks er fornámið í myndlistardeildinni með verk sem eru kannski opnari til túlkunar." - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.