Innlent

Víða slæm færð í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vegfarendur eru hvattir til varkárni í dag.
Vegfarendur eru hvattir til varkárni í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar vegfarendur við slæmri færð sökum vatns og krapa á stofnbrautum. Inni í íbúðarhverfunum er þæfingsfærð og í sumum tilfellum þungfært. Lögreglan biður því alla um að fara varlega og fara hægt yfir svo það megi komast hjá óhöppum og slysum.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi er hríðarveður, skafrenningur og takmarkað skyggni fram eftir degi um norðvestanvert landið frá Snæfellsnesi vestur um og norður í Eyjafjörð. Suðvestan- og sunnanlands hefur hlánað. Hvöss S-átt í fyrstu, en lægir um tíma fyrir hádegi. Á

höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum gengur í norðvestan storm 20 til 25 m/s um klukkan 13 með krapahríð, en veðrið gengur svo niður síðdegis.

Mjög hvasst verður á Suðurlandi og hviður allt að 35-40 m/s undir Eyjafjöllum frá því um klukkan 14 til 17. Á fjallvegum Austfjarða má gera ráð fyrir stórhríðarveðri nú fyrir hádegi en það gengur niður og hlánar um miðbik dagsins. Gengur í norðan og norðvestanstorm með snjókomu og skafrenningi norðanlands um klukkan 16 til 18 og norðaustan- og austanlands heldur síðar eða um klukkan 19 til 21 þá með snörpum hviðum sunnan undir Vatnajökli og á Austfjörðum fram á nóttina.

Vegfarendur athugið að víða er hlýtt og því má búast við slæmri hálku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×